Þetta kemur fram í Bítinu á Bylgjunni. „Þetta er töluvert algengara en fólk heldur að fólk sé í símanum undir stýri. Að tala í símann, skrifa skilaboð, skoða fréttir og skoða samfélagsmiðla,“ segir Hildur en 12 til 25 prósent slysa í umferðinni má rekja til símanotkunar.
Skilaboðasendingar og myndbandsgláp
Hildur segir að hún hafi tekið eftir breytingum á atferli ökumanna þegar kemur að símanotkun. Áður fyrr hafi það verið algengast að fólk hafi verið að tala í síma undir stýri.
„Þetta er búið að breytast í að fólk sé að skrifa skilaboð. Ég hef meira að segja orðið vitni að því að fólk sé að skrifa skilaboð með báðum höndum og stýra með hné.“
Þá séu dæmi um að fólk horfi á myndbönd undir stýri. Sumir hafi jafnvel komið símunum áföstum við mælaborð. Það sé algengara að fólk sé með símann í hendinni og skoði samfélagsmiðla.
„Segjum sem svo að þú sért á hámarkshraða, 60 kílómetra hraða á Suðurlandsbraut og þú horfir á símann þinn í 5,6,7 sekúndur, það getur þýtt 50,60,70 metrar þar sem þú ert ekki einu sinni að horfa fram fyrir þig. Það getur allt gerst í umferðinni, það getur allt gerst á ögurstundu, þú þarft að geta tekið ákvörðun og framkvæmt hana á nokkrum sekúndum. Þessar fimm, sex sekúndur eru farnar frá þér og þá getur ýmislegt gerst.“
40 prósent geri þetta samt
Hildur Kristín bendir á að nýverið hafi fallið dómur um banaslys þar sem ökumaður hafi verið í farsíma undir stýri. Við því að vera í síma undir stýri sé viðurlögin sekt upp á 40 þúsund krónur og punktur í ökuferilsskrá.
„Samkvæmt könnun Samgöngustofu voru 98 prósent svarenda sem töldu þetta atferli hættulegt. Svo er alltaf einhver hluti sem gerir þetta samt,“ segir Hildur Kristín. Hún segir að það séu um 40 prósent sem geri þetta samt. Það sé áhyggjuefni en Hildur Kristín hvetur fólk til að kynna sér átak Samgöngustofu á vefnum skjahaetta.is.