Samkvæmt upplýsingum frá embættinu var fundað frá klukkan eitt síðdegis í gær og fram á ellefta tímann að kvöldi.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir í samtali við fréttastofu að viðræðurnar séu á svipuðum slóðum og undanfarið, deiluaðilar séu enn ósammála um þó nokkur atriði, en mæti þó til funda og reyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu.
Verkföll hófust í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum á mánudag. Öll verkföll í leikskólum eru ótímabundin en tímabundin í grunnskólum. Fyrr í vikunni kom svo í ljós að verkföll hefjist í fimm framhaldsskólum og einum tónlistarskóla 21. febrúar hafi samningar ekki náðst.