Skíðavertíðin er í hámarki í Colorado og önnur svæði hafa tilkynnt um Covid-19 smit en hópsmitið í Winter Park er það umfangsmesta sem upp hefur komið.
Að sögn samskiptastjóra skíðasvæðisins hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana til að takmarka smit, meðal annars endurskoða reglur í kringum lyfturnar, koma upp áminningum um grímuskyldu, bókunarfyrirkomulag til að takmarka fjölda og sýnatökur meðal starfsmanna.
Gestir segja þó nokkurn misbrest á því að grímuskyldunni sé framfylgt.
CNN hefur eftir fjölmiðlafulltrúa ríkisstjóra Colorado að skíðasvæðin þurfi að gera meira til að skipuleggja og höndla aukna aðsókn um helgar.
Bólusetningar standa nú yfir víðsvegar um Bandaríkin en fjöldi fólks hættir enn á smit þegar það mætir til starfa. Amazon greindi frá því í október síðastliðnum að næstum 20 þúsund starfsmenn hefðu greinst með Covid-19.
Þá hafa sum fyrirtæki gripið til þess að greiða starfsmönnum bónusa fyrir að láta bólusetja sig.