Skíðasvæði landsins verða meira og minna opin í dag og færð víða með besta móti.
Í Bláfjöllum er opið frá klukkan 10 til 17 í dag en þar er hiti rétt undir frostmarki og 2 til 3 metra vindhraði á sekúndu.
„Sem sagt frábært veður,“ eins og það er orðað á vef skíðasvæðisins. Skíðalyfturnar Kóngurinn og Töfrateppið eru enn bilaðaðar eftir að hafa orðið fyrir eldingum en Drottningin, Kaðallinn og byrjendalyftur við Bláfjallaskála verða opnar í dag sem og flestar lyftur á suðursvæði. Þá verður göngubraut lögð um svæðið klukkan 10.
Fjórar skíðalyftur verða þá opnar í Hlíðarfjalli í dag en þar er nú um 10 stiga frost og hægur norðvestan vindur. Skíðasvæðið opnar klukkan 10 og er opið til 16.
Skíðasvæðið í Tindastól verður að sama skapi opið í dag frá klukkan 11 til kl 16.
Staðkunnugir segja veðrið þar nú vera með besta móti; logn, -6 stiga hiti og léttskýjað. Veðrið leikur einnig um skíðasvæðið á Siglufirði sem verður opið í dag frá 11 til 16. Þar er sunnan gola, 5 stiga frost og heiðskýrt.
Skíðasvæðið í Skálafelli er lokað.
