Gervitunglsmyndir sem Veðurstofan fékk um helgina segir Benedikt staðfesta þá mynd að gangurinn hafi færst í suður.
„Þær staðfestu þá mynd sem við vorum þegar komin með, bæði með skjálftavirkni og gps mælingum, að gangurinn virðist hafa færst aðeins til suðurs eftir föstudaginn síðasta og þar hefur aðalþenslan verið,“ segir Benedikt í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Ég held að við verðum að gera ráð fyrir eldgosi á meðan þetta heldur áfram, sérstaklega þegar við sjáum svona hátt landris, það eru talsverðar landbreytingar sem fylgja þessu,“ segir Benedikt.
„Það er kannski örlítil grynnkun en ekkert sem auðvelt er að fest hönd á,“ segir Benedikt.
Hann telur nokkuð líklegt að skjálftavirkni hafi í dag og seinni partinn í gær verið lítil vegna þess að spenna hafi losnað í stóra skjálftanum á þriðja tímanum í gær.
„Ég hugsa að það sé frekar líklegt, að við höfum séð spennu losna í gær þegar allt fór í gang, það hefur verið lítil skjálftavirkni fram af degi sem er kannski að aukast núna. Og við sjáum hana kannski vaxa um tíma núna,“ segir Benedikt.
Gervitungl fer yfir svæðið klukkan sjö í kvöld og segir Benedikt að von sé á niðurstöðum úr upplýsingum sem berast frá tunglinu um miðjan morgun á morgun.