Samkvæmt tilkynningu á Facebook-síðu skíðasvæðanna Bláfjalla og Skáfells er lokað í Bláfjöllum í dag vegna veðurs.
Þegar fréttastofa leit við á skíðasvæðinu í gærkvöldi var farið að hvessa nokkuð hressilega. Einar Bjarnason, rekstrarstjóri Bláfjalla, segir vindhraða nú fara upp í þrjátíu metra á sekúndu í hviðum. Hann segir þó að enn sé hiti undir frostmarki á svæðinu og nokkur ofankoma.
Þá sé snjóstaða ágæt í fjöllunum og því ætti að sleppa þótt hiti hækki örlítið.
„Meðan það er frost þá er maður alveg sáttur, ef það hangir í einni gráðu þá er ég sloppinn líka. Þá fæ ég slydduna og það er líka bara fínt,“ segir Einar í samtali við Vísi.
„Verðum við ekki að segja að við séum frekar sáttir og vonum að loksins séum við að fá vetur aftur eftir mörg ár,“ segir hann aðspurður hvernig honum lítist á veturinn.