Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, sendi Fréttablaðinu grein sem birt var á frettabladid.is í gær. Þar rekur hann ástæður Tyrklandsstjórnar fyrir innrásinni í Kúrdahéröð Sýrlands.
„Tyrkland hóf aðgerðina til þess að tryggja þjóðaröryggi sitt með því að aflétta þeirri hættu sem stafaði af hryðjuverkamönnum með fram landamærasvæðum landsins. Aðgerð þessi mun frelsa Sýrlendinga sem þar búa úr ánauð hryðjuverkasamtaka og uppræta þá ógn sem vofir yfir friðhelgi yfirráðasvæðis Sýrlands og stjórnmálalegri heild landsins,“ segir Cavusoglu í greininni.
Hafnar hann því alfarið að innrásinni sé beint gegn Kúrdum sem slíkum og einnig að hún dragi tennurnar úr baráttunni gegn ISIS. Segir hann ranga mynd hafa verið dregna upp af innrásinni.
„Við höfum ítrekað lagt fram tillögu um að komið verði upp öruggu svæði, þ.m.t. á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Við höfum hvatt Bandaríkin til að hætta að veita hermdarverkamönnum efnislegan stuðning. En bandaríska skrifstofuveldið í öryggismálum gat ekki komið sér til að losa sig við þann hóp sem þekktur er með skammstöfuninni P.Y.D./Y.P.G., þ.e. Lýðræðissambandsflokkur Kúrda/Verndarsveitir alþýðunnar.“
Líkt og Recep Erdogan forseti segir Cavusoglu að P.Y.D/Y.P.G. hafi tengsl við Verkamannaflokk Kúrda, sem skilgreindur er sem hryðjuverkasamtök í Tyrklandi, og smygli sprengiefnum undir landamærin í gegnum jarðgöng. Kúrdar, Arabar og kristnir verði betur settir þegar Tyrkjaher frelsi þá undan oki samtakanna.
Þá segir Cavusoglu að Tyrkir veiti miklum fjölda flóttamanna athvarf, þar á meðal 300 þúsund Kúrdum. „Tyrkland er með hæstu útgjöld til mannúðarmála í heiminum og hýsir flesta flóttamenn á heimsvísu,“ segir hann.
