Enski boltinn

Dómarar til­kynna á­horf­endum á­kvörðun sína

Sindri Sverrisson skrifar
Dómarar á Englandi þurfa að tala við stuðningsmenn á vellinum, þegar Liverpool mætir Tottenham í tveimur leikjum í undanúrslitum enska deildabikarsins.
Dómarar á Englandi þurfa að tala við stuðningsmenn á vellinum, þegar Liverpool mætir Tottenham í tveimur leikjum í undanúrslitum enska deildabikarsins. Getty

Dómarar leikjanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í fótbolta munu þurfa að greina frá VAR-ákvörðunum sínum í gegnum hátalarakerfi til áhorfenda, á leikvöngunum sem spilað verður á.

Þetta mun sem sagt eiga við um það þegar dómarar fara VAR-sjánni svokölluðu til að meta eigin ákvarðanir, eða þegar grípa þarf inn í vegna rangstöðu eða þegar markaskorari snerti boltann óvart með hendi.

Samtök knattspyrnufélaga á Englandi og Wales, EFL, vilja með þessu reyna að bæta upplifun þeirra áhorfenda sem mæta á leikina og vilja vita betur hvað er að gerast hverju sinni.

Dómararnir munu hins vegar ekki þurfa að útskýra neinar aðrar ákvarðanir en þær sem kalla á að þeir fari í VAR-sjána. Stórar ákvarðanir á borð við rautt spjald eða vítaspyrnudóm þarf því ekki að útskýra ef að skoðun myndbandsdómara leiðir til þess að fyrsta ákvörðun dómara fær að standa.

Áhorfendur fá heldur ekki að heyra nein samskipti á milli dómara og myndbandsdómara, heldur aðeins hver lokaniðurstaðan er.

Það að dómarar tilkynni sínar ákvarðanir á leikvanginum, í gegnum hljóðnema, er þekkt til að mynda úr amerískum fótbolta og ruðningi. Þetta fyrirkomulag hefur áður verið prófað í fótbolta, til að mynda á HM kvenna árið 2023.

Undanúrslit enska deildabikarsins eru í tveggja leikja einvígum 7. og 8. janúar, og 5. og 6. febrúar, og þar mætast Arsenal og Newcastle annars vegar og Tottenham og Liverpool hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×