Menning

Regngyðjurnar snúa aftur

Helga Soffía Einarsdóttir er þýðandi og þýddi meðal annars hina geysivinsælu bók um Kvenspæjara númer eitt. Helga Soffía á ekki langt að sækja Afríkuáhugann því hún bjó í Tansaníu með fjölskyldu sinni þegar hún var lítil. Fyrir nokkrum árum fór hún ásamt vinkonu sinni á fornar slóðir. "Það var mjög skrýtið að koma aftur til Tansaníu því að þegar við fórum var allt frekar aftarlega á merinni og landið algjört þriðjaheims land. Þegar við komum aftur voru internetkaffi á hverju götuhorni og allir með gemsa. " Þær vinkonurnar gerðu víðreist í þessari ferð. "Hildur vinkona mín bjó í Kenýa og ég í Tansaníu svo við heimsóttum bæði löndin, fórum fyrst til Tansaníu og Zansibar og tókum svo rútu til Kenýa og enduðum í tveggja daga brúðkaupsveislu hjá vinkonu hennar. Eitt af því fjölmarga sem hafði áhrif á mig í heimsókninni var að þegar við bjuggum þarna var Tansanía fátæka landið og maður fór til Kenýa til að fá smá siðmenningu, íspinna, bíó og þessháttar. Nú hefur dæmið snúist við og við fórum úr gemsavæddri malbikaðri Tansaníu yfir á holótta vegi í vatns- og rafmagnslausu Kenýa. Þetta má kenna spillingunni sem því miður þrífst of vel í mörgum Afríkulöndum." En ferðin var skemmtileg og þær stöllur náðu að leggja sitt af mörkum til Afríku. " Þegar við komum til Kenýa hafði ekki rignt þar í tvö ar. Við sögðum fólki að örvænta ekki því við kæmum frá regnlandinu mikla og værum regngyðjur. Og viti menn, daginn eftir fór að rigna. Góða veðrið núna stafar væntanlega af því að vinkona mín frá Chile er í heimsókn og hún er örugglega sólgyðja frá sólarlöndum..."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.