Lífið

Hreinar rúður spegla ljósadýrðina

Aðventan gengur í garð um helgina með öllu sem henni fylgir. Flestir byrja þá að skreyta híbýlin fyrir jólin, taka að minnsta kosti upp aðventuskreytingarnar, þar á meðal ljósin sem sett eru út í gluggakistuna og nokkrar seríur fylgja gjarnan með. En til að bjarmi ljósanna njóti sín þurfa rúðurnar að vera lausar við seltu og sót og því er það góður siður að byrja á því að þvo gluggana, bæði að utan og innan. Margs konar hreinsiefni á rúður eru til í verslunum og einnig örtrefjaklútar sem gagnast vel innanhúss og er svo fleygt í þvottavél eftir notkun. Volgt vatn, uppþvottalög og hreina tusku er líka sígilt að nota við slík þrif. Að utanverðu má mæla með kústum úr svínshárum til að bera sápuvatnið á glerið. En líka má nota góðan hreingerningarklút, eða jafnvel gamalt handklæði, og hengja á skúringaskrúbbinn. Rúðuskafa er svo ómissandi til að hreinsa burt vatn og sápu og með því öll óhreinindin. Þegar búið er að þvo rúðurnar er gott að bera léttbón á þær. Það heldur þeim hreinum mun lengur og ætti fólk sem býr við sjávarsíðuna ekki síst að huga að því, þar sem seltan er versti óvinur glugganna. Einnig er hægt að nota Rain-x sem mikið er notað á bílrúður og jafnvel gleraugu. Það efni er töluvert dýrara en bón. Vissulega getur verið erfitt að komast að gluggum að utanverðu ef þeir eru hátt uppi og má þá benda á að mörg fyrirtæki bjóða upp á gluggaþvott, bæði fyrir heimili og fyrirtæki.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.