Tannvara eða vaðmál? 6. janúar 2005 00:01 Hverju sætir það, að útkjálkamenn uppi á Íslandi skrifuðu bækur, sem áttu engan sinn líka annars staðar um heiminn á sinni tíð? Íslendingasögur eru einsdæmi: aðrar þjóðir eiga engar sambærilegar ritaðar heimildir um sögu sína, engan sambærilegan skáldskap. Gunnar Karlsson prófessor gerir glögga grein fyrir þessari sérstöðu í bók sinni Goðamenning (2004). Helgi Guðmundsson prófessor hefur sett fram nýstárlega kenningu um uppsprettur menningar á Íslandi til forna. Í bók sinni Um haf innan (1997) og svo aftur í greinasafninu Land úr landi (2002) vekur Helgi máls á því, að hámenning um heiminn eins og t.a.m. bókmenning Íslendinga til forna hefur hvergi orðið til við búskap á sveitabæjum. Fyrri höfundar eins og t.d. Sigurður Nordal (Íslenzk menning, 1942) settu þetta atriði ekki fyrir sig. Þeir leituðu skýringar á fornmenningu Íslendinga fyrst og fremst í menningunni sjálfri. Þráðurinn var þessi: Snorri Sturluson skrifaði bækur sínar á íslenzku, ekki á latínu eins og tíðkaðist í öðrum löndum. Hér var álitlegur hluti alþýðu manna læs á eigin tungu, svo að Snorri og aðrir höfundar áttu greiðan aðgang að lesendum. Tungan skipti sköpum, hún batt þjóðina saman og bjó til markað fyrir bækurnar. Harðbýlið neyddi menn til útrásar. Þessar skýringar eru trúlegar, svo langt sem þær ná. Helgi Guðmundsson gengur skrefi lengra. Hann setur málið í alþjóðlegt samhengi og dregur sömu ályktun og erlendir hagsögufræðingar: "Hámenning verður til þar sem er verzlun, auðmyndun, náið samband við útlönd, umferð fólks víða að og menntun." Helgi fjallar um efnahagshlið þessa mikla máls og segir: "Menning kostar of fjár. Það vill stundum gleymast. En það er undantekningarlaus regla, að ríkidæmi er undanfari og undirstaða menningar." Hann lýsir því, hvernig lærðir menn íslenzkir dvöldust í útlöndum árum saman, keyptu bækur og forfrömuðust og fluttu með sér heim. Það var dýrt. Helgi sér það í hendi sér, að til þess að standa straum af menntun og menningu þurfti útflutning. Hann dregur í efa fyrri kenningar um erlend viðskipti Íslendinga í fornöld - þá viðteknu hugmynd, að vaðmál hafi verið helzta útflutningsafurð landsmanna. Vaðmálskenningin getur varla staðizt, segir Helgi, til þess var vaðmál of verðlítið og vandmeðfarið. Það þurfti t.d. að fleygja því fyrir borð, ef það blotnaði í hafi, því að ella hefðu skipin sokkið. Hlustum áfram: "Til þess að skýra þá hámenningu, sem varð til á Íslandi, verður að sýna fram á verzlun með dýrar vörur, auðmyndun, menntun, sem barst úr mörgum áttum, umferð útlendra manna og siglingar til margra landa, einkum utan Norðurlanda. Svipast má eftir einhverju, sem gat staðið undir auðmyndun á Íslandi. Ekki verður séð, að neinn innlendur varningur komi þar til greina. Þá verður að leita til útlanda. Varla hafa Íslendingar auðgazt á verzlun með vörur innan Evrópu. Leita verður í aðra átt. Þar getur aðeins verið um eitt að ræða. Það er Ameríkuverzlunin, verzlun Evrópubúa við Grænland og Kanada. Þar var Eldorado og Klondyke þessa tíma. Svo vildi til, að Íslendingar bjuggu þar um þjóðbraut þvera. Þeir voru milliliðir í þessari verzlun. ... Grænlenzkur varningur [dýr, skinn og tennur, innskot mitt] var lúxusvarningur." Auðmenn og höfðingjar sóttust eftir grænlenzkum vörum, segir Helgi, vaðmál var handa almúganum. Auðmenn áttu gnægð fjár, almúginn var bláfátækur. Og þarna, bætir hann við, er hún kannski lifandi komin skýringin á því, hvers vegna íslenzkum skáldum hélzt uppi að þylja langar drápur yfir erlendum konungum, sem höfðu engin skilyrði til að skilja svo torræðan kveðskap: skáldin íslenzku komu færandi hendi úr hafi með góss frá Grænlandi, svo að kóngar og jarlar létu sig þá hafa drápurnar. Þetta kalla ég bókmenntahagfræði af beztu sort. Helgi Guðmundsson leggur þunga þraut fyrir sagnfræðinga. Um Grænlandsverzlunina til forna verður engum órækum vitnisburðum við komið, úr því að tannvöruviðskiptin, sem Helgi gizkar á og rekur ýmis dæmi um, voru ekki skráð á skinn. Það er ógerlegt að kortleggja þessi viðskipti og meta umfang þeirra þúsund árum síðar. Menn verða þá heldur að reiða sig á rökrænt samhengi hlutanna og eigið innsæi og ímyndunarafl. Þar skilur milli feigs og ófeigs í fræðum og vísindum. Grænlandskenning Helga Guðmundssonar bregður óvæntri birtu á sögu Íslands með því að afhjúpa ósamræmi í eldri hugmyndum og stinga í staðinn upp á hagrænni skýringu, sem rímar vel við rannsóknir hagsögufræðinga. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Breytum þessu saman! Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Skoðun
Hverju sætir það, að útkjálkamenn uppi á Íslandi skrifuðu bækur, sem áttu engan sinn líka annars staðar um heiminn á sinni tíð? Íslendingasögur eru einsdæmi: aðrar þjóðir eiga engar sambærilegar ritaðar heimildir um sögu sína, engan sambærilegan skáldskap. Gunnar Karlsson prófessor gerir glögga grein fyrir þessari sérstöðu í bók sinni Goðamenning (2004). Helgi Guðmundsson prófessor hefur sett fram nýstárlega kenningu um uppsprettur menningar á Íslandi til forna. Í bók sinni Um haf innan (1997) og svo aftur í greinasafninu Land úr landi (2002) vekur Helgi máls á því, að hámenning um heiminn eins og t.a.m. bókmenning Íslendinga til forna hefur hvergi orðið til við búskap á sveitabæjum. Fyrri höfundar eins og t.d. Sigurður Nordal (Íslenzk menning, 1942) settu þetta atriði ekki fyrir sig. Þeir leituðu skýringar á fornmenningu Íslendinga fyrst og fremst í menningunni sjálfri. Þráðurinn var þessi: Snorri Sturluson skrifaði bækur sínar á íslenzku, ekki á latínu eins og tíðkaðist í öðrum löndum. Hér var álitlegur hluti alþýðu manna læs á eigin tungu, svo að Snorri og aðrir höfundar áttu greiðan aðgang að lesendum. Tungan skipti sköpum, hún batt þjóðina saman og bjó til markað fyrir bækurnar. Harðbýlið neyddi menn til útrásar. Þessar skýringar eru trúlegar, svo langt sem þær ná. Helgi Guðmundsson gengur skrefi lengra. Hann setur málið í alþjóðlegt samhengi og dregur sömu ályktun og erlendir hagsögufræðingar: "Hámenning verður til þar sem er verzlun, auðmyndun, náið samband við útlönd, umferð fólks víða að og menntun." Helgi fjallar um efnahagshlið þessa mikla máls og segir: "Menning kostar of fjár. Það vill stundum gleymast. En það er undantekningarlaus regla, að ríkidæmi er undanfari og undirstaða menningar." Hann lýsir því, hvernig lærðir menn íslenzkir dvöldust í útlöndum árum saman, keyptu bækur og forfrömuðust og fluttu með sér heim. Það var dýrt. Helgi sér það í hendi sér, að til þess að standa straum af menntun og menningu þurfti útflutning. Hann dregur í efa fyrri kenningar um erlend viðskipti Íslendinga í fornöld - þá viðteknu hugmynd, að vaðmál hafi verið helzta útflutningsafurð landsmanna. Vaðmálskenningin getur varla staðizt, segir Helgi, til þess var vaðmál of verðlítið og vandmeðfarið. Það þurfti t.d. að fleygja því fyrir borð, ef það blotnaði í hafi, því að ella hefðu skipin sokkið. Hlustum áfram: "Til þess að skýra þá hámenningu, sem varð til á Íslandi, verður að sýna fram á verzlun með dýrar vörur, auðmyndun, menntun, sem barst úr mörgum áttum, umferð útlendra manna og siglingar til margra landa, einkum utan Norðurlanda. Svipast má eftir einhverju, sem gat staðið undir auðmyndun á Íslandi. Ekki verður séð, að neinn innlendur varningur komi þar til greina. Þá verður að leita til útlanda. Varla hafa Íslendingar auðgazt á verzlun með vörur innan Evrópu. Leita verður í aðra átt. Þar getur aðeins verið um eitt að ræða. Það er Ameríkuverzlunin, verzlun Evrópubúa við Grænland og Kanada. Þar var Eldorado og Klondyke þessa tíma. Svo vildi til, að Íslendingar bjuggu þar um þjóðbraut þvera. Þeir voru milliliðir í þessari verzlun. ... Grænlenzkur varningur [dýr, skinn og tennur, innskot mitt] var lúxusvarningur." Auðmenn og höfðingjar sóttust eftir grænlenzkum vörum, segir Helgi, vaðmál var handa almúganum. Auðmenn áttu gnægð fjár, almúginn var bláfátækur. Og þarna, bætir hann við, er hún kannski lifandi komin skýringin á því, hvers vegna íslenzkum skáldum hélzt uppi að þylja langar drápur yfir erlendum konungum, sem höfðu engin skilyrði til að skilja svo torræðan kveðskap: skáldin íslenzku komu færandi hendi úr hafi með góss frá Grænlandi, svo að kóngar og jarlar létu sig þá hafa drápurnar. Þetta kalla ég bókmenntahagfræði af beztu sort. Helgi Guðmundsson leggur þunga þraut fyrir sagnfræðinga. Um Grænlandsverzlunina til forna verður engum órækum vitnisburðum við komið, úr því að tannvöruviðskiptin, sem Helgi gizkar á og rekur ýmis dæmi um, voru ekki skráð á skinn. Það er ógerlegt að kortleggja þessi viðskipti og meta umfang þeirra þúsund árum síðar. Menn verða þá heldur að reiða sig á rökrænt samhengi hlutanna og eigið innsæi og ímyndunarafl. Þar skilur milli feigs og ófeigs í fræðum og vísindum. Grænlandskenning Helga Guðmundssonar bregður óvæntri birtu á sögu Íslands með því að afhjúpa ósamræmi í eldri hugmyndum og stinga í staðinn upp á hagrænni skýringu, sem rímar vel við rannsóknir hagsögufræðinga.