Mál beggja kynja 7. mars 2005 00:01 Í gær var í þætti hjá mér Guðrún Þórhallsdóttir málfræðingur. Þetta var mjög athyglisvert spjall - það má sjá hér á veftívíinu. Guðrún er að skoða það sem kallast mál beggja kynja (inclusive language) - breytingar á íslenskum textum til að koma til móts við jafnréttissjónarmið. Að baki þessu liggja hugmyndir sem einkum hafa náð að festa rætur í kirkjunni. Til grundvallar liggur að tungumálið sé útilokandi - meðal annars vegna þess hvernig karlkyni er beitt. Því þurfi að breyta tungutakinu í boðun kirkjunnar. Þannig segir til dæmis í Biblíunni: "Sá sem trúir á mig mun lifa, þótt hann deyi." Á máli beggja kynja væri þetta: "Þau sem trúa á mig munu lifa, þótt þau deyi." Eða: "Sælir eru hjartahreinir" sem verður þá "Sæl eru hjartahrein". Þetta hefur raunar gengið ennþá lengra en að fikta bara í kynjunum. Þannig hefur samkvæmt þessari hugmyndafræði ekki þótt nógu gott að segja "lærisveinar Jesú" - heldur hefur verið gripið til þess ráðs að segja í staðinn "vinir og vinkonur Jesú". Hins vegar er ekki vitað til þess að "falsspámönnum" hafi verið breytt í "falsspámenn og -spákonur" eða "púkum" í "púka og púkynjur". Þeirri venju að karlkyn á íslensku hafi hlutleysishlutverk, fylgi ekki bara líffræðilegu kyni, er semsagt hafnað, nei, nú skal tekið mið af líffærafræðinni. Ef farið er út í ystu æsar með þetta hlýtur það að teljast stórkostleg kerfisbreyting - kynjakerfi tungunnar yrði riðlað og margt yrði sjálfsagt óskiljanlegt. Eða eins og Guðrún segir - "enginn Íslendingur á mál beggja kynja að móðurmáli". Við gætum líka farið að dunda okkur við að breyta bókmenntatextum, eftirfarandi telst varla í lagi: "Þótt þú langförull legðir..." "Við göngum svo léttir í lundu..." "Vertu dyggur, trúr og tryggur..." Guðrún vitnar í Helgu Kress, einn helsta hugmyndafræðing femínista á Íslandi, sem sagði í viðtali við tímaritið Veru fyrir nokkrum árum að miklvægasta verk í jafnréttismálum næstu árin væri að breyta tungumálinu: "...það er það sem mótar vitund okkar og hugmyndir. Þöggun kvenna er tvíþætt, annars vegar er ekki á þær hlustað, hins vegar eru þær ósýnilegar. Í tungumálinu, eða réttara sagt beitingu þess, er mannkynið karlkyns." --- --- --- Stefán Pálsson veltir því fyrir sér í pistli á síðu sinni hvort Ferðin til Sædýrasafnsins sé ekki besta barnabók á íslensku. Nú er ég ekki dómbær um það - er of gamall til að hafa lesið bókina á réttum aldri. Ég man þó að þegar hún var lesin í útvarp í eina tíð fannst mér titillinn kindarlegur. Er ekki réttara að segja Ferðin í Sædýrasafnið, að minnsta kosti ef maður ætlar að halda sig við íslenska málvenju? Ef spurt væri um bestu íslensku barnabækurnar myndi ég nefna bókaflokkinn um Gvend Jóns eftir Hendrik Ottósson. Ég hélt mikið upp á þessar bækur þegar ég var strákur - þær gerast reyndar á slóðunum þar sem ég er alinn upp í Vesturbænum. Það sakar ekki að hafa sögusviðið svo ljóslifandi fyrir sér. Svo las ég þessar bækur aftur fyrir frænda minn fyrir nokkrum árum. Fannst þær alveg jafn skemmtilegar. Sprelllifandi blanda af strákapörum, ævintýrum í kringum höfnina, vangaveltum um heimsmál, ógleymanlegum persónum. Samt veit ég ekki til þess að bækurnar hafi verið endurútgefnar í seinni tíð - fann fáein eintök í búðinni hjá Braga fyrir nokkrum árum. --- --- --- Eitt af því sem maður komst ekki hjá að lesa í bernsku voru bækur Stefáns Jónssonar - þær voru út um allt á bókasöfnum. Þessu var haldið að börnum. Seinna enduruppgötvuðu Silja Aðalsteinsdóttir og fleiri sem fóru að fjalla um barnabókmenntir sem bókmenntagrein bækur Stefáns - þetta var á tíma þegar allir voru voða vinstrisinnaðir, tískuorðið var alþýðumenning og hjá Stefáni var aldeilis að finna lýsingar á kjörum alþýðunnar. Ég man aðallega hvað það var sorglegt í fyrstu bókinni um Hjalta litla þegar hann var tekinn burt frá mömmu sinni. Þetta vakti með mér óttatilfinningu sem mér gekk illa að losna við. Seinna las ég svo bók eftir Stefán sem hét Sólskinsdagar. Það mætti álykta að þetta hafi verið nokkuð glöð og björt bók, en svo var ekki. Söguþráðurinn var eitthvað á þessa leið: Fjölskylda flyst úr sveitinni á mölina. Það er kreppa. Pabbinn fær ekki vinnu. Strákurinn er lagður í einelti í skóla. Móðirin þarf að vinna fyrir fjölskyldunni með saumaskap. Pabbinn fær pláss á skipi. Hann verður fyrir slysi, missir annan fótinn. Móðirin heldur áfram að sauma. Hún fær berkla. Strákurinn verður að hætta í skóla til að vinna. Og svo framvegis. Svona voru sólskinsdagar Stefáns. --- --- --- Deilurnar innan Frjálslynda flokksins eru orðnar all svakalegar. Sigurður Ingi Jónsson hélt því fram í þættinum hjá mér í gær að Magnús Þór Hafsteinsson hefði verið að leka út óhróðri um sig. Nú svarar hann í sömu mynt á heimasíðu sinni og les Magnúsi pistilinn - ég ætla ekki einu sinni að hafa þetta eftir. Flokkurinn var veikur fyrir og kemur enn veiklaðri af flokksþinginu. Hverslags frjálslyndur flokkur er það sem er á móti einkavæðingu, vill áframhaldandi rekstur ríkisútvarps, leggur til að boruð verði nítján jarðgöng og hefur sem aðaltalsmann sinn í málefnum höfuðborgarinnar Ólaf F. Magnússon? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Mest lesið Skólaforðun: Rangnefni sem þarfnast nýrrar nálgunar Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Hvernig gerðist þetta? Tryggvi Hjaltason Skoðun Gleymdu leikskólabörnin Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Í gær var í þætti hjá mér Guðrún Þórhallsdóttir málfræðingur. Þetta var mjög athyglisvert spjall - það má sjá hér á veftívíinu. Guðrún er að skoða það sem kallast mál beggja kynja (inclusive language) - breytingar á íslenskum textum til að koma til móts við jafnréttissjónarmið. Að baki þessu liggja hugmyndir sem einkum hafa náð að festa rætur í kirkjunni. Til grundvallar liggur að tungumálið sé útilokandi - meðal annars vegna þess hvernig karlkyni er beitt. Því þurfi að breyta tungutakinu í boðun kirkjunnar. Þannig segir til dæmis í Biblíunni: "Sá sem trúir á mig mun lifa, þótt hann deyi." Á máli beggja kynja væri þetta: "Þau sem trúa á mig munu lifa, þótt þau deyi." Eða: "Sælir eru hjartahreinir" sem verður þá "Sæl eru hjartahrein". Þetta hefur raunar gengið ennþá lengra en að fikta bara í kynjunum. Þannig hefur samkvæmt þessari hugmyndafræði ekki þótt nógu gott að segja "lærisveinar Jesú" - heldur hefur verið gripið til þess ráðs að segja í staðinn "vinir og vinkonur Jesú". Hins vegar er ekki vitað til þess að "falsspámönnum" hafi verið breytt í "falsspámenn og -spákonur" eða "púkum" í "púka og púkynjur". Þeirri venju að karlkyn á íslensku hafi hlutleysishlutverk, fylgi ekki bara líffræðilegu kyni, er semsagt hafnað, nei, nú skal tekið mið af líffærafræðinni. Ef farið er út í ystu æsar með þetta hlýtur það að teljast stórkostleg kerfisbreyting - kynjakerfi tungunnar yrði riðlað og margt yrði sjálfsagt óskiljanlegt. Eða eins og Guðrún segir - "enginn Íslendingur á mál beggja kynja að móðurmáli". Við gætum líka farið að dunda okkur við að breyta bókmenntatextum, eftirfarandi telst varla í lagi: "Þótt þú langförull legðir..." "Við göngum svo léttir í lundu..." "Vertu dyggur, trúr og tryggur..." Guðrún vitnar í Helgu Kress, einn helsta hugmyndafræðing femínista á Íslandi, sem sagði í viðtali við tímaritið Veru fyrir nokkrum árum að miklvægasta verk í jafnréttismálum næstu árin væri að breyta tungumálinu: "...það er það sem mótar vitund okkar og hugmyndir. Þöggun kvenna er tvíþætt, annars vegar er ekki á þær hlustað, hins vegar eru þær ósýnilegar. Í tungumálinu, eða réttara sagt beitingu þess, er mannkynið karlkyns." --- --- --- Stefán Pálsson veltir því fyrir sér í pistli á síðu sinni hvort Ferðin til Sædýrasafnsins sé ekki besta barnabók á íslensku. Nú er ég ekki dómbær um það - er of gamall til að hafa lesið bókina á réttum aldri. Ég man þó að þegar hún var lesin í útvarp í eina tíð fannst mér titillinn kindarlegur. Er ekki réttara að segja Ferðin í Sædýrasafnið, að minnsta kosti ef maður ætlar að halda sig við íslenska málvenju? Ef spurt væri um bestu íslensku barnabækurnar myndi ég nefna bókaflokkinn um Gvend Jóns eftir Hendrik Ottósson. Ég hélt mikið upp á þessar bækur þegar ég var strákur - þær gerast reyndar á slóðunum þar sem ég er alinn upp í Vesturbænum. Það sakar ekki að hafa sögusviðið svo ljóslifandi fyrir sér. Svo las ég þessar bækur aftur fyrir frænda minn fyrir nokkrum árum. Fannst þær alveg jafn skemmtilegar. Sprelllifandi blanda af strákapörum, ævintýrum í kringum höfnina, vangaveltum um heimsmál, ógleymanlegum persónum. Samt veit ég ekki til þess að bækurnar hafi verið endurútgefnar í seinni tíð - fann fáein eintök í búðinni hjá Braga fyrir nokkrum árum. --- --- --- Eitt af því sem maður komst ekki hjá að lesa í bernsku voru bækur Stefáns Jónssonar - þær voru út um allt á bókasöfnum. Þessu var haldið að börnum. Seinna enduruppgötvuðu Silja Aðalsteinsdóttir og fleiri sem fóru að fjalla um barnabókmenntir sem bókmenntagrein bækur Stefáns - þetta var á tíma þegar allir voru voða vinstrisinnaðir, tískuorðið var alþýðumenning og hjá Stefáni var aldeilis að finna lýsingar á kjörum alþýðunnar. Ég man aðallega hvað það var sorglegt í fyrstu bókinni um Hjalta litla þegar hann var tekinn burt frá mömmu sinni. Þetta vakti með mér óttatilfinningu sem mér gekk illa að losna við. Seinna las ég svo bók eftir Stefán sem hét Sólskinsdagar. Það mætti álykta að þetta hafi verið nokkuð glöð og björt bók, en svo var ekki. Söguþráðurinn var eitthvað á þessa leið: Fjölskylda flyst úr sveitinni á mölina. Það er kreppa. Pabbinn fær ekki vinnu. Strákurinn er lagður í einelti í skóla. Móðirin þarf að vinna fyrir fjölskyldunni með saumaskap. Pabbinn fær pláss á skipi. Hann verður fyrir slysi, missir annan fótinn. Móðirin heldur áfram að sauma. Hún fær berkla. Strákurinn verður að hætta í skóla til að vinna. Og svo framvegis. Svona voru sólskinsdagar Stefáns. --- --- --- Deilurnar innan Frjálslynda flokksins eru orðnar all svakalegar. Sigurður Ingi Jónsson hélt því fram í þættinum hjá mér í gær að Magnús Þór Hafsteinsson hefði verið að leka út óhróðri um sig. Nú svarar hann í sömu mynt á heimasíðu sinni og les Magnúsi pistilinn - ég ætla ekki einu sinni að hafa þetta eftir. Flokkurinn var veikur fyrir og kemur enn veiklaðri af flokksþinginu. Hverslags frjálslyndur flokkur er það sem er á móti einkavæðingu, vill áframhaldandi rekstur ríkisútvarps, leggur til að boruð verði nítján jarðgöng og hefur sem aðaltalsmann sinn í málefnum höfuðborgarinnar Ólaf F. Magnússon?