Menning

Spennandi námskeið í sumarbúðum

Sumarbúðirnar Ævintýraland á Hvanneyri bjóða upp á heilmörg spennandi námskeið fyrir börnin og ætti engum að leiðast. Birgitta Haukdal mætir á svæðið. "Á fyrsta degi kynnum við námskeiðin mjög vel fyrir börnunum en þau eru á námskeiðum í tvær stundir á hverjum degi," segir Svanhildur Sif Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri sumarbúðanna Ævintýralands á Hvanneyri. Hún segir fjölbreytt námskeið í boði í sumarbúðunum; svo sem í kvikmyndagerð, leiklist, myndlist, tónlist, dansi, íþróttum, hestamennsku, ævintýraferðum, skyndihjálp og grímugerð. "Vissulega þykir börnunum oft erfitt að velja og stundum elta þau bara vinina. Fjölbreytnin er svo mikil að engum ætti að leiðast hjá okkur." Um verslunarmannahelgina verða í boði sérstök námskeið fyrir börn á aldrinum 12 til 14 ára. "Við höldum inni flestum námskeiðunum og bætum við umhirðu húðar, förðun, þolfimi og tískusýningu og fleira. Auk þess erum við með karókíkeppni þar sem alvaran er mun meiri en hjá þeim yngri," segir Svanhildur og bætir við að auk þess sé alltaf einhver landsfrægur aðili með forvarnarspjall við börnin, en í ár mun Birgitta Haukdal mæta á svæðið. Hugmyndafræði sumarbúðanna byggir á skilyrðislausri virðingu fyrir börnum. "Hver hópur heldur jafnan hádegisfund með sínum umsjónarmanni. Þessir fundir eru hugsaðir til að efla samstöðu og samhug og sjá hvort öllum líði ekki vel hjá okkur. Valdir eru leikir til að efla sjálfstraustið og börnin læra bæði að hrósa öðrum og sjálfum sér. Við reynum að sá góðum fræjum hvar og hvenær sem við getum," segir Svanhildur. Upplýsingar um sumarbúðirnar er að finna á vefsíðunni sumarbudir.is.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.