Bob Wilson, fyrrum markvörður Arsenal, segir að þó Jose Mourinho sé vissulega hæfileikaríkur knattspyrnustjóri, sé hroki hans ólíðandi og bendir því á að margir verði því fegnir þegar fer að halla undan fæti hjá honum.
"Mourinho hefur vissulega náð frábærum árangri, Chelsea er besta liðið í landinu í augnablikinu og þeir sem vinna með honum segja að hann sé algjört valmenni. Það breytir því þó ekki að hrokinn í honum er óþolandi og að hann skuli hafa stormað af velli í gær án þess að taka í höndina á andstæðingum sínum er fyrir neðan allar hellur. Eins eru þau orð sem hann hefur látið falla um Arsene Wenger með öllu út í hött," sagði Wilson.