Þrír leikir fóru fram í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi en þar með lauk elleftu umferð deildarinnar sem hófst með sigri Breiðabliks á Valsstúlkum í fyrrakvöld. Í leikjunum þremur voru skoruð 22 mörk en 275 mörk hafa nú verið skoruð í deildinni í ár.
KR-stúlkur burstuðu lánlaust lið FH með tólf mörkum gegn engu á heimavelli sínum í gær en hinar Hafnfirsku hafa enn ekki hlotið stig í deildinni. KR á enga möguleika á titlinum sem Valur og Breiðablik berjast nú um. Fylkisstúlkur unnu góðan sigur á KA/Þór í skemmtilegum leik sem lauk með 3-2 sigri Fylkis og þá unnu Keflavíkurstúlkur stöllur sínar í Stjörnunni 4-1.