Tónlist

Fjórfaldur Sveinn í kvöld

Jan Mayen. Fulltrúar Reykjavíkur á keflvísku rokksveitaballi í Stúdentakjallaranum í kvöld.
Jan Mayen. Fulltrúar Reykjavíkur á keflvísku rokksveitaballi í Stúdentakjallaranum í kvöld. MYND/Valli

Tónleikarnir Hreinn JólaSveinn fara fram í Stúdentakjallaranum í kvöld. Þar verður bassaleikarinn Sveinn Helgi Halldórsson í nokkru aðalhlutverki því hann leikur með öllum fjórum hljómsveitunum sem fram koma.

Sveinn er bassaleikari ekki óþekktari sveita en Ælu, Jan Mayen, Rými og Tokyo Megaplex.

Hann verður því nokkuð fastur á sviðinu allt kvöldið. „Ætli við þurfum ekki að taka einhverjar pásur til að stilla upp, en annars verð ég eiginlega samfleytt á sviðinu,“ sagði hann. Hugmyndin er ekki runnin undan rifjum Sveins, heldur félaga hans. „Þeir voru að mana mig út í þetta og ég hugsaði bara af hverju ekki? Þetta er bara gaman,“ sagði hann. Tónleikarnir áttu upphaflega að bera heitið Hreinn Sveinn, en fyrst þá bar upp á jólahátíðina var nafninu breytt í skyndi og stefnir Sveinn á að skarta jólasveinabúningi á sviðinu. Hann átti reyndar enn þá eftir að útvega búninginn þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær en kvaðst vona að það hefðist.

„Þetta verður svona eins og Bubbatónleikarnir, þarna eru hljómsveitir sem hafa verið hættar eða í pásu,“ sagði Sveinn, en Æla og Jan Mayen hafa þó verið virkar undanfarin ár eins og flestir vita. „Hjálmar voru líka að hætta svo Tokyo ætti að geta haldið áfram,“ sagði Sveinn. Hann sagði tónleikana vera hálfgert sveitaball. „Það eru flestir úr Keflavík, en svo er Jan Mayen þarna líka, þeir eru algjör borgarbörn,“ sagði hann sposkur, og mælti með tónleikunum fyrir þá Reykvíkinga sem vilja prófa keflvískt rokksveitaball. Tónleikarnir hefjast klukkan tíu í kvöld og kostar fimm hundruð krónur inn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.