Ástandið í herbúðum Birmingham á síðustu dögum félagsins í ensku úrvalsdeildinni voru ekki ánægjulegir ef marka má nýjustu fréttir úr herbúðum liðsins. Steve Bruce hefur gefið upp að fleiri en einn leikmaður liðsins hafi neitað að spila í lokaleiknum gegn Bolton í gær, en liðið var sem kunnugt er þegar fallið í fyrstu deild.
"Það er ótrúlegt að hugsa til þess að til séu atvinnuknattspyrnumenn sem neita að spila. Ef um einn leikmann væri að ræða í þessu sambandi hefði ég líklega sett hann út í kuldann, en þeir voru fleiri en það sem neituðu að spila," sagði Bruce agndofa, en hann mun taka á sig helmings launalækkun í kjölfar þess að Birmingham féll niður um deild.
"Þetta hefur verið skelfilegt tímabil fyrir okkur, en nú verðum við að setjast niður og fara vandlega yfir stöðuna varðandi næsta tímabil."