Harry Redknapp heldur áfram að gera hosur sínar grænar fyrir miðverðinum Sol Campbell, sem á dögunum tilkynnti að hann væri hættur að spila með Arsenal og ætlaði að reyna fyrir sér erlendis. Campbell var gagnrýndur nokkuð undir lok síðustu leiktíðar og voru margir á því að bestu dagar hans sem leikmanns væru að baki.
"Sol Campbell er leikmaður sem ég hef miklar mætur á og hann á að mínu mati nóg inni til að spila í þrjú eða fjögur ár í viðbót. Við gætum sannarlega notað leikmann á borð við hann hjá okkur. Hann er frábær miðvörður og leiðtogi og ef menn þurfa frekari staðfestingu á því, bendi ég þeim á að skoða frammistöðu hans í úrslitaleik meistaradeildarinnar," sagði Redknapp, sem þó hefur enn ekki sett sig í samband við leikmanninn. Talið er víst að Portsmouth muni reyna að gera honum tilboð á næstunni þó Campbell hafi áréttað að hann vilji reyna fyrir sér utan Englands.