Sjónvarpið 10. febrúar 2007 00:01 Tvisvar sinnum kom ég að mér kærkominni manneskju grátandi fyrir framan sjónvarpið í vikunni. Það er vel yfir meðaltali. Það sem fékk svona á viðkomandi manneskju voru annars vegar viðtölin við fórnarlömbin frá Breiðavík í Kastljósi - átakanlegar hörmungar - og hins vegar American Idol - amerískur afþreyingariðnaður í öllu sínu veldi. ATRIÐIÐ í American Idol var vissulega hjartnæmt, þótt ekki hafi ég fellt tár enda góður og gegn eyjaskeggi sem leitast eftir fremsta megni við að bera ekki tilfinningar mínar á torg, eða þannig. Felli bara tár þegar vindáttin stendur þannig á mig, sko. En hvað um það. Þarna söng semsagt eldri maður til konu sinnar, sem þá var nýlátin. Og hann söng undurblítt til lífsförunautar síns, af mikilli fegurð. NÚ er það svo að frásögnin af Breiðavík, með öllum sínum sláandi uppljóstrunum, og American Idol eru tvennt ólíkt. Kannski myndu einhverjir vilja segja að það væri lýsandi fyrir firringu samtímans, eða eitthvað slíkt, að fólk skuli horfa á þetta tvennt á sama kvöldinu og fella tár af báðu tilefni. Um það hefur meira að segja spunnist umræða á bloggsíðum í kjölfar Breiðavíkurfrásagnarinnar hvort hún hafi átt erindi í sjónvarp, þar sem sjónvarp sé einkum miðill ætlaður afþreyingu, eins og American Idol, og því lítilsvirðandi við svo mikinn harmleik að ætla honum stað þar við hliðina. ÉG er ósammála slíkum sjónarmiðum, svo ég taki það skýrt fram, en ég vil þó segja þetta: Sjónvarpið er auðvitað dálítið skrítinn miðill. Eina stundina er líf og fjör og allir að grínast. Fimm mínútum síðar brestur á með sögu af hræðilegum misþyrmingum. „Þetta var svo sannarlega átakanleg saga," segir kannski þáttastjórnandi. „En við skulum vinda okkar kvæði í kross. Hljómsveitin Stuð var að gefa út geisladisk." HIÐ skrítna við sjónvarpið felst í þessu stöðuga áframhaldi. Eitt leiðir af öðru. Ég held að sumir hafi ákveðna tilhneigingu til þess að líta svo á að sjónvarpið, út af þessu eðli sínu, geri lítið úr miklum viðburðum með því að vera sífellt að vaða úr einu í annað. Átti kannski bara að hætta útsendingu eftir þessar frásagnir úr Breiðuvík? Var í raun hægt að halda áfram eins og ekkert væri? Meðtók almenningur þessar frásagnir almennilega? Af hverju hlær fólk núna, þegar það grét áðan? Af hverju grætur það núna yfir Idol? Hvað á þetta allt saman að þýða? ÉG hef ekki áhyggjur af þessu. Við kunnum flest vel að gera greinarmun á mismunandi tilfinningum, hinu hörmulega og hinu gleðilega, fegurðinni og sorginni, þótt við grátum út af báðu. Ég ætla meira að segja að leyfa mér að halda því fram að sjónvarpið hafi beinlínis þjálfað okkur í þessu. Svo ég rétti nú hinum meinta sökudólgi alls hins slæma í nútímaþjóðfélagi örlitla hjálparhönd að lokum: Ég held að sjónvarpið hafi hreinlega gert okkur að betri manneskjum, ef eitthvað er. Guðmundur Steingrímsson Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Steingrímsson Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Vondar hugmyndir í verðbólgu Hildur Sverrisdóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar! Skúli Bragi Geirdal Skoðun
Tvisvar sinnum kom ég að mér kærkominni manneskju grátandi fyrir framan sjónvarpið í vikunni. Það er vel yfir meðaltali. Það sem fékk svona á viðkomandi manneskju voru annars vegar viðtölin við fórnarlömbin frá Breiðavík í Kastljósi - átakanlegar hörmungar - og hins vegar American Idol - amerískur afþreyingariðnaður í öllu sínu veldi. ATRIÐIÐ í American Idol var vissulega hjartnæmt, þótt ekki hafi ég fellt tár enda góður og gegn eyjaskeggi sem leitast eftir fremsta megni við að bera ekki tilfinningar mínar á torg, eða þannig. Felli bara tár þegar vindáttin stendur þannig á mig, sko. En hvað um það. Þarna söng semsagt eldri maður til konu sinnar, sem þá var nýlátin. Og hann söng undurblítt til lífsförunautar síns, af mikilli fegurð. NÚ er það svo að frásögnin af Breiðavík, með öllum sínum sláandi uppljóstrunum, og American Idol eru tvennt ólíkt. Kannski myndu einhverjir vilja segja að það væri lýsandi fyrir firringu samtímans, eða eitthvað slíkt, að fólk skuli horfa á þetta tvennt á sama kvöldinu og fella tár af báðu tilefni. Um það hefur meira að segja spunnist umræða á bloggsíðum í kjölfar Breiðavíkurfrásagnarinnar hvort hún hafi átt erindi í sjónvarp, þar sem sjónvarp sé einkum miðill ætlaður afþreyingu, eins og American Idol, og því lítilsvirðandi við svo mikinn harmleik að ætla honum stað þar við hliðina. ÉG er ósammála slíkum sjónarmiðum, svo ég taki það skýrt fram, en ég vil þó segja þetta: Sjónvarpið er auðvitað dálítið skrítinn miðill. Eina stundina er líf og fjör og allir að grínast. Fimm mínútum síðar brestur á með sögu af hræðilegum misþyrmingum. „Þetta var svo sannarlega átakanleg saga," segir kannski þáttastjórnandi. „En við skulum vinda okkar kvæði í kross. Hljómsveitin Stuð var að gefa út geisladisk." HIÐ skrítna við sjónvarpið felst í þessu stöðuga áframhaldi. Eitt leiðir af öðru. Ég held að sumir hafi ákveðna tilhneigingu til þess að líta svo á að sjónvarpið, út af þessu eðli sínu, geri lítið úr miklum viðburðum með því að vera sífellt að vaða úr einu í annað. Átti kannski bara að hætta útsendingu eftir þessar frásagnir úr Breiðuvík? Var í raun hægt að halda áfram eins og ekkert væri? Meðtók almenningur þessar frásagnir almennilega? Af hverju hlær fólk núna, þegar það grét áðan? Af hverju grætur það núna yfir Idol? Hvað á þetta allt saman að þýða? ÉG hef ekki áhyggjur af þessu. Við kunnum flest vel að gera greinarmun á mismunandi tilfinningum, hinu hörmulega og hinu gleðilega, fegurðinni og sorginni, þótt við grátum út af báðu. Ég ætla meira að segja að leyfa mér að halda því fram að sjónvarpið hafi beinlínis þjálfað okkur í þessu. Svo ég rétti nú hinum meinta sökudólgi alls hins slæma í nútímaþjóðfélagi örlitla hjálparhönd að lokum: Ég held að sjónvarpið hafi hreinlega gert okkur að betri manneskjum, ef eitthvað er. Guðmundur Steingrímsson