Bókabrennur Guðmundur Steingrímsson skrifar 3. nóvember 2007 00:01 Umræða um endurútgáfu bókarinnar Tíu litlir negrastrákar með teikningum eftir Mugg er svolítið athyglisverð. Mér finnst sjálfum fullkomlega ástæðulaust að endurútgefa þessa bók, hún má kjurr liggja, einkum og sér í lagi í ljósi þess að hún á sér rætur í dálítið viðurstyggilegri hugmyndafræði, alveg burtséð frá því hvað teikningarnar kunna að vera kjút og rímið snjallt. ÞaÐ sem mér hefur fundist athyglisverðast í þessari umræðu eru viðbrögð tiltekinna ofurfrjálslyndra hugsuða - og tel ég mig reyndar verulega frjálslyndan sjálfan - við þessari gagnrýni á endurútgáfuna. Menn stökkva upp á nef sér í vörn fyrir prent- og tjáningarfrelsi og spyrja: „Má ekkert gera? Vill fólk bókabrennur?" ÞAÐ er mikilvægt að verja prent- og tjáningarfrelsi með kjafti og klóm. En það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að oft snúast svona deilumál ekki endilega um réttindi. Í tilviki negrastrákanna eru held ég fáir sem halda því fram að það megi ekki, út frá lögum og reglum, endurútgefa bókina. Hins vegar eru margir sem telja að það hefði vel mátt sleppa því. Það er margt sem má. En það er ekki þar með sagt að maður eigi endilega að gera allt sem má. TÖKUM bara bókabrennur sem dæmi. Út af fyrir sig get ég ekki ímyndað mér að það sé nokkuð í lögum sem kemur í veg fyrir það að fólk geti brennt bækur. Er það ekki bara athafnafrelsi? Einhverjum kynni að finnast það beinlínis skynsamlegt að brenna bækur. Þær safnast fyrir innan heimilis. Sumar seljast ekki yfir höfuð. Sumir gætu líka talið - talandi um tjáningarfrelsi -- að slíkar brennur væru mjög vel til þess fallnar að tjá andúð á því sem í tilteknum bókum stendur. Kannski telja sumir það beinlínis kósí að ilja sér við slík mótmæli að vetrarlagi. EN flestir eru hins vegar mjög ákveðið á móti bókabrennum, skiljanlega. Hinir ofurfrjálslyndu líka. En spurningin er: Af hverju er það? Jú, þær tengjast ákveðinni viðurstyggð í sögunni. En hér blasir við klemma: Þeir sem hvað harðast mæla með því að það sé fullkomlega í lagi að gefa út bækur eins og Tíu litla negrastráka hljóta að telja það jafnframt hið sjálfsagðasta mál að fólk brenni slíkar bækur ef það svo kýs. Þetta eru í stuttu máli ógöngur hinna ofurfrjálslyndu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Steingrímsson Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hver er munurinn á Viðreisn og Samfylkingu? Soffía Svanhvít Árnadóttir Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Annarra manna peningar eru peningar okkar allra Davíð Þór Jónsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Ég á ‘etta, ég má ‘etta Jón Ármann Steinsson Skoðun
Umræða um endurútgáfu bókarinnar Tíu litlir negrastrákar með teikningum eftir Mugg er svolítið athyglisverð. Mér finnst sjálfum fullkomlega ástæðulaust að endurútgefa þessa bók, hún má kjurr liggja, einkum og sér í lagi í ljósi þess að hún á sér rætur í dálítið viðurstyggilegri hugmyndafræði, alveg burtséð frá því hvað teikningarnar kunna að vera kjút og rímið snjallt. ÞaÐ sem mér hefur fundist athyglisverðast í þessari umræðu eru viðbrögð tiltekinna ofurfrjálslyndra hugsuða - og tel ég mig reyndar verulega frjálslyndan sjálfan - við þessari gagnrýni á endurútgáfuna. Menn stökkva upp á nef sér í vörn fyrir prent- og tjáningarfrelsi og spyrja: „Má ekkert gera? Vill fólk bókabrennur?" ÞAÐ er mikilvægt að verja prent- og tjáningarfrelsi með kjafti og klóm. En það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að oft snúast svona deilumál ekki endilega um réttindi. Í tilviki negrastrákanna eru held ég fáir sem halda því fram að það megi ekki, út frá lögum og reglum, endurútgefa bókina. Hins vegar eru margir sem telja að það hefði vel mátt sleppa því. Það er margt sem má. En það er ekki þar með sagt að maður eigi endilega að gera allt sem má. TÖKUM bara bókabrennur sem dæmi. Út af fyrir sig get ég ekki ímyndað mér að það sé nokkuð í lögum sem kemur í veg fyrir það að fólk geti brennt bækur. Er það ekki bara athafnafrelsi? Einhverjum kynni að finnast það beinlínis skynsamlegt að brenna bækur. Þær safnast fyrir innan heimilis. Sumar seljast ekki yfir höfuð. Sumir gætu líka talið - talandi um tjáningarfrelsi -- að slíkar brennur væru mjög vel til þess fallnar að tjá andúð á því sem í tilteknum bókum stendur. Kannski telja sumir það beinlínis kósí að ilja sér við slík mótmæli að vetrarlagi. EN flestir eru hins vegar mjög ákveðið á móti bókabrennum, skiljanlega. Hinir ofurfrjálslyndu líka. En spurningin er: Af hverju er það? Jú, þær tengjast ákveðinni viðurstyggð í sögunni. En hér blasir við klemma: Þeir sem hvað harðast mæla með því að það sé fullkomlega í lagi að gefa út bækur eins og Tíu litla negrastráka hljóta að telja það jafnframt hið sjálfsagðasta mál að fólk brenni slíkar bækur ef það svo kýs. Þetta eru í stuttu máli ógöngur hinna ofurfrjálslyndu.