Gengi hlutabréfa í japanska bílaframleiðandanum Nissan tók snarpa dýfu og lækkaði um 8,3 prósent í dag eftir að fyrirtækið sendi frá neikvæða afkomuviðvörun vegna yfirvofandi samdráttar á nýjum bílum undir merkjum félagsins. Ef af verður er þetta fyrsti samdrátturinn síðan Carlos Ghosn tók við forstjórastóli hjá Nissan um mitt ár 1999.
Nissan sendi frá sér afkomuviðvörunina á föstudag í síðustu viku en þar kemur fram að þriggja prósenta samdráttur í sölu á nýjum bílum hafi orðið til þess að hagnaður fyrirtækisins hafi dregist saman um 23 prósent á síðasta ársfjórðungi.
Helsti samdráttur er á bandaríska markaðnum, að því er segir í afkomuviðvöruninni.
Afkoma Nissan mun ekki vera verri síðan Ghosn tók við forstjórastólnum en þá rambaði fyrirtækið á barmi gjaldþrots. Ghosn, sem sömuleiðis stýrir franska bílaframleiðandanum Renault, hefur lýst yfir vonbrigðum með niðurstöðuna og hefur í hyggju að leggja fram þriggja ára áætlun um rekstur fyrirtækisins í apríl.