Hinn ástralski Ian Thorpe segir ekkert hæft í þeim sögusögnum að hann sé í þann mund að taka sundhettuna af hillunni og hefja keppni að nýju. Thorpe, einn sigursælasti sundmaður allra tíma, tilkynnti fyrir þremur mánuðum að hann væri hættur að keppa í sundi vegna þrátlátra meiðsla.
"Ég hugsa um sundið á hverjum degi og sakna þess, en þær hugsanir snúast ekki um að vera á undan einhverjum öðrum í mark. Ákvörðun mín frá því fyrir áramót stendur og ég er ekki að fara að keppa á ný," sagði Thorpe við ástralska fjölmiðla í gær.
Hinn 24 ára gamli Thorpe viðurkennir að hann hafi ennþá ákveðið hvað hann vilji starfa við nú þegar sundferillinn er örugglega á enda, en kveðst hann hafa nokkur járn í eldinum.
"Það eru mikið af fundum framundan sem snúa að framtíð minni, en ég hef hug á því að starfa áfram innan íþróttarinnar - hugsanlega sem þulur í sjónvarpi. Mig langar líka að hjálpa sundliðinu sem tekur þátt í ÓL í Peking og miðla reynslu minni til þeirra," sagði Thorpe.