Arsene Wenger hefur verið lofað veglegri summu til að fá nýja leikmenn til Arsenal í sumar og mun sú upphæð ekki minnka neitt þrátt fyrir að félagið verði af umtalsverðum tekjum með því að vera þegar fallið úr leik í Meistaradeildinni. Talið er að upphæðin sem Wenger fái sé um 20 milljónir punda.
"Að sjálfsögðu eru það mikil vonbrigði að komast ekki áfram í Meistaradeildinni. En það mun ekki hafa nein áhrif á þann pening sem verður notaður til að styrkja liðið í sumar. Fjárhagsáætlanir gera ráð fyrir engum árangri í Evrópukeppni. Hefðum við komist í úrslit hefði upphæðin þannig hugsanlega aukist," segir Keith Edelman, fjármálastjóri Arsenal.