Smásöluverslun jókst um 1,4 prósent í Bretlandi í febrúar. Hækkunin nemur 4,9 prósentum á ársgrundvelli, samkvæmt upplýsingum bresku hagstofunnar. Þetta er nokkru meira en greinendur gerðu ráð fyrir. Þá er þetta talsverður viðsnúningur frá lokum síðasta árs en í nóvember og desember dróst smásöluverslun saman á milli mánaða.
Að sögn hagstofunnar hefur smásöluverslun ekki aukist jafn hratt síðan í nóvember árið 2004.
Greinendur eru ekki á einu máli hvernig túlka megi niðurstöðurnar og segja að þær geti aukið líkurnar á því að Englandsbanki hækki stýrivexti fyrir sumarið.
Mesta aukningin var í sölu á skóm, fatnaði og vefnaðarvöru. Sala á þessum vöruflokkum jókst um 4,7 prósent og hefur ekki aukist jafn mikið í rúm fjögur ár.