Bresk barnaverndaryfirvöld hafa úrskurðað að Gerry og Kate McCann fái að halda tvíburabörnum sínum. Fulltrúar yfirvalda heimsóttu þau á fimmtudag í síðustu viku. Vinir hjónanna segja að þau hafi sjálf beðið um þá heimsókn eftir að fram komu kröfur á bloggsíðum um að yfirvöld tækju tvíburana í sína vörslu.
Á þessum bloggsíðum var þeim ekki beinlínis kennt um hvarf Madeleine en þau þóttu hafa sýnt mikla vanrækslu með því að skilja börnin ein eftir á hótelherberginu í Portúgal. Hjónin eru sögð mjög undrandi og sár yfir því hvernig málið hefur snúist gegn þeim.
Í upphafi nutu þau samúðar og stuðnings um allan heim. Í dag er þeim kennt um að hafa sjálf orðið telpunni að bana. Allskonar sögur hafa verið á kreiki um þátt þeirra. Þau hafa jafnvel verið sökuð um að hafa farið út á snekkju vinafólks og fleygt líki Madeleine í sjóinn.
McCann hjónin halda tvíburunum
Óli Tynes skrifar
