Brann tapaði í kvöld fyrir þýska úrvalsdeildarliðinu HSV í fyrst umferð riðlakeppni UEFA-bikarkeppninnar, 1-0, á heimavelli.
Kompany skoraði markið á 62. mínútu en þetta var fyrsti leikur Brann eftir að ljóst varð að liðið væri Noregsmeistari í knattspyrnu.
Kristján Örn Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason voru á sínum stað í vörn Brann en Ármann Smári Björnsson kom inn á sem varamaður þegar skammt var til leiksloka.
Ólafur Ingi Skúlason lék fyrri hálfleikinn í jafnteflisleik Helsingborg og gríska liðsins Panionios í Svíþjóð í dag. Grikkirnir komust yfir seint í fyrri hálfleik en Henrik Larsson jafnaði metin fyrir Helsingborg á 83. mínútu.
Fyrr í dag gerði AZ Alkmaar 1-1 jafntefli við Zenti St. Petersburg í Rússlandi. Grétar Rafn Steinsson gat ekki leikið með AZ vegna meiðsla.
Íslendingaliðin Everton og Bolton spila einnig í UEFA keppninni í kvöld en hvorki Bjarni Þór Viðarsson né Heiðar Helguson eru í leikmannahópi síns liðs.