Hinar raunverulegu gjafir Steinunn Stefánsdóttir skrifar 24. desember 2008 06:00 Á aðfangadegi jóla er numið staðar. Jólaundirbúningnum er lokið og hátíðin tekur við. Eftir annasama aðventu tekur við hvíld og samvera við fjölskyldu og aðra ástvini. Jólin eru fyrst og fremst tími fjölskyldunnar og ekki síst barnanna. Á jólum gefum við og þiggjum, ekki bara gjafir í áþreifanlegu formi heldur einnig annars konar gjafir, gafir sem við finnum fyrir innra með okkur. Aðventan hefur að mörgu leyti verið lágstemmdari í ár en undanfarið. Margir hafa minna milli handanna en áður og setur það mark sitt á jólaundirbúninginn. Ákveðinn léttir er þó líka fólginn í því að dregið hafi úr veraldlegu vafstri í aðdraganda jólanna, jafnvel þó að sú breyting sé alls ekki sjálfvalin heldur til komin vegna ytri aðstæðna. Í stað stórra og dýrra gjafa eru íslenskar skáldsögur vinsæl jólagjöf og samkvæmt frétt Fréttablaðsins í gær lætur nærri að að minnsta kosti ein íslensk skáldsaga rati inn á hvert heimili í landinu. Diskar með íslenskri tónlist seljast einnig langt umfram erlenda diska. Íslensk hönnun og handverk ratar líkast til einnig í fleiri jólapakka í ár en undanfarið. Og hverjar eru hinar raunverulegu gjafir? Vitað er að hvorki vex gleði þess sem gefur né þess sem þiggur í jöfnu hlutfalli við verðgildi gjafar í krónum og talið. Gleðin er fólgin í hlýjum og góðum huga sem sýndur er með gjöfinni og tekið er við með opnum huga. Jólin skerpa einnig skuggahliðar samfélagsástandsins. Aldrei hafa fleiri leitað aðstoðar hjá hjálparsamtökum fyrir jólin en nú. Aldrei hafa heldur fleiri rétt slíkum samtökum hjálparhönd en nú. Í aðdraganda jóla í ár höfum við orðið vitni að náungakærleik eins og hann gerist fegurstur; skipshafnir sem fært hafa hjálparsamtökum ferðasjóði sína, fyrirtæki og jafnvel fjölskyldur sem ákveðið hafa að sleppa jólagjöfum í ár og gefa andvirðið til þeirra sem á aðstoð þurfa að halda og áfram mætti telja. Á flestum heimilum er jólanna beðið af eftirvæntingu og þau boðin velkomin. Þetta á ekki síst við á erfiðum tímum. Jólin veita okkur kærkomna hvíld frá amstri og áhyggjum og það er um að gera að leyfa sér að njóta þeirrar hvíldar og koma svo endurnærður til leiks að loknum hátíðum. Jólin eru tími mikillar gleði en einnig mikillar sorgar. Hjá þeim sem um sárt eiga að binda geta dagarnir í kringum jólin verið þeir allra erfiðustu á árinu. Þeir sem þurfa að eyða jólunum fjarri fjölskyldu sinni; á sjúkrahúsum eða í fangelsum upplifa mikinn einmanaleika. Einnig hinir sem af einhverjum ástæðum eiga ekki góð tengsl við fólkið sitt. Sum börn búa við þann veruleika að kvíða ævinlega jólunum vegna áfengisneyslu foreldris eða annarrar vanlíðan. Það er veruleiki sem ekkert barn ætti að þurfa að lifa við. Við jól og áramót verða kaflaskil. Nýtt ár er handan jólanna með hækkandi sól. Þá er tímabært að bretta upp ermar og takast á við framtíðina en nota jólahátíðina til að hvílast og byggja upp styrk og þol. Gleðileg jól. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Á aðfangadegi jóla er numið staðar. Jólaundirbúningnum er lokið og hátíðin tekur við. Eftir annasama aðventu tekur við hvíld og samvera við fjölskyldu og aðra ástvini. Jólin eru fyrst og fremst tími fjölskyldunnar og ekki síst barnanna. Á jólum gefum við og þiggjum, ekki bara gjafir í áþreifanlegu formi heldur einnig annars konar gjafir, gafir sem við finnum fyrir innra með okkur. Aðventan hefur að mörgu leyti verið lágstemmdari í ár en undanfarið. Margir hafa minna milli handanna en áður og setur það mark sitt á jólaundirbúninginn. Ákveðinn léttir er þó líka fólginn í því að dregið hafi úr veraldlegu vafstri í aðdraganda jólanna, jafnvel þó að sú breyting sé alls ekki sjálfvalin heldur til komin vegna ytri aðstæðna. Í stað stórra og dýrra gjafa eru íslenskar skáldsögur vinsæl jólagjöf og samkvæmt frétt Fréttablaðsins í gær lætur nærri að að minnsta kosti ein íslensk skáldsaga rati inn á hvert heimili í landinu. Diskar með íslenskri tónlist seljast einnig langt umfram erlenda diska. Íslensk hönnun og handverk ratar líkast til einnig í fleiri jólapakka í ár en undanfarið. Og hverjar eru hinar raunverulegu gjafir? Vitað er að hvorki vex gleði þess sem gefur né þess sem þiggur í jöfnu hlutfalli við verðgildi gjafar í krónum og talið. Gleðin er fólgin í hlýjum og góðum huga sem sýndur er með gjöfinni og tekið er við með opnum huga. Jólin skerpa einnig skuggahliðar samfélagsástandsins. Aldrei hafa fleiri leitað aðstoðar hjá hjálparsamtökum fyrir jólin en nú. Aldrei hafa heldur fleiri rétt slíkum samtökum hjálparhönd en nú. Í aðdraganda jóla í ár höfum við orðið vitni að náungakærleik eins og hann gerist fegurstur; skipshafnir sem fært hafa hjálparsamtökum ferðasjóði sína, fyrirtæki og jafnvel fjölskyldur sem ákveðið hafa að sleppa jólagjöfum í ár og gefa andvirðið til þeirra sem á aðstoð þurfa að halda og áfram mætti telja. Á flestum heimilum er jólanna beðið af eftirvæntingu og þau boðin velkomin. Þetta á ekki síst við á erfiðum tímum. Jólin veita okkur kærkomna hvíld frá amstri og áhyggjum og það er um að gera að leyfa sér að njóta þeirrar hvíldar og koma svo endurnærður til leiks að loknum hátíðum. Jólin eru tími mikillar gleði en einnig mikillar sorgar. Hjá þeim sem um sárt eiga að binda geta dagarnir í kringum jólin verið þeir allra erfiðustu á árinu. Þeir sem þurfa að eyða jólunum fjarri fjölskyldu sinni; á sjúkrahúsum eða í fangelsum upplifa mikinn einmanaleika. Einnig hinir sem af einhverjum ástæðum eiga ekki góð tengsl við fólkið sitt. Sum börn búa við þann veruleika að kvíða ævinlega jólunum vegna áfengisneyslu foreldris eða annarrar vanlíðan. Það er veruleiki sem ekkert barn ætti að þurfa að lifa við. Við jól og áramót verða kaflaskil. Nýtt ár er handan jólanna með hækkandi sól. Þá er tímabært að bretta upp ermar og takast á við framtíðina en nota jólahátíðina til að hvílast og byggja upp styrk og þol. Gleðileg jól.