Gengi hlutabréfa lækkaði almennt í Bandaríkjunum í dag. Helstu vísitölur vestanhafs ruku upp í gær eftir stýrivaxtalækkun bandaríska seðlabankans.
Helsta ástæðan fyrir lækkuninni nú er hagnaðartaka fjárfesta auk þess sem tap umfram væntingar hjá bandaríska bankanum Morgan Stanley gerði einhverja svartsýna á stöðu efnahagsmála.
Morgan Stanley tapaði 2,37 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi sem er talsvert meira en menn gerðu ráð fyrir. Þetta er annar dagurinn í röð sem bandarískt risafjármálafyrirtæki skilar slæmu uppgjöri en í gær greindi Goldman Sachs frá því að bankinn hefði tapað 2,12 milljörðum dala á sama tímabili. Þetta er fyrsta tap bankans síðan hann varð að skráðu almenningshlutafélagi fyrir ellefu árum.
S&P 500-hlutabréfavísitalan lækkaði um 0,96 prósent í dag en Dow Jones-vísitalan um 1,12 prósent.