Tónlist

Iceland Airwaves í Belgíu

Amiina er meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum.
Amiina er meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum.
Fjöldi íslenskra listamanna koma fram á tveimur Iceland Airwaves tónleikum í Brussel í mánuðinum. Tónleikarnir eru hluti af lista- og menningarhátíðinni Iceland on The Edge, sem hefst þann 26. febrúar, og stendur fram í miðjan júní.

Fyrri tónleikarnir verða nokkru fyrr en hátíðin, eða á morgun föstudaginn 15. febrúar. Þá stíga á stokk Amiina, Jóhann Jóhannson, Seabear og Ólafur Arnalds í menningarmiðstöðinni Bozar. Síðari Iceland Airwaves tónleikarnir fara síðan fram 8. mars á tónleikastaðnum Ancienne Belgique þar sem fram koma; múm, Kira Kira, Skakkamanage og Parachutes.

Markmið Iceland on the Edge, er að kynna íslenskar listir og listamenn og efla ímynd Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Dagskrá hátíðarinnar er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða metnaðarfulla íslensk menningardagskrá sem unnin hefur verið í samstarfi við Bozar, stærstu menningar- og listamiðstöð Belgíu, sem og eitt vinsælasta tónlistarhús Brussel á sviði popp og rokk tónlistar, Ancienne Belgique. Hins vegar verða ýmsir íslenskir viðburðir á sviði ferða- , ráðstefnu- orku og alþjóðamála.

Meðal helstu atriða er sýning á íslenskri samtímamyndlist, Pétur Gautur í flutningi Þjóðleikhússins, sýningar á vegum Íslenska dansflokksins og danshóps Ernu Ómarsdóttur, bókmenntakvöld um Halldór Laxness og um unga samtímahöfunda, íslenskar kvikmyndir og tónleikar með ungu íslensku tónlistarfólki á sviði sígildrar tónlistar og popptónlistar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.