Stjórnendur bandaríska bílarisans General Motors stefna á að greiða niður neyðarlán sem stjórnvöld vestra veittu fyrirtækinu til að forða því frá gjaldþroti fyrr á árinu. Endurgreiðslan á ekki að hefjast fyrr en eftir sex ár.
Væntingar eru um betri afkomu bílaframleiðandans nú eftir viðvarandi taprekstur frá 2004, að sögn Bloomberg-fréttastofunnar.
Fyrirtækið stefnir á að greiða einn milljarð dala á hverjum ársfjórðungi næstu ár. Heildarendurgreiðsla mun hljóða upp á 6,7 milljarða af milljörðunum fimmtíu sem ríkið lét General Motors í té. Það jafngildir rúmlega þrettán prósenta endurgreiðslu.- jab