Solstra Holding seldi Debenhams aðeins reksturinn í Magasin du Nord en heldur áfram fasteignum verslunarinnar. Þar að auki fylgdi með í kaupum Debenhams 25 ára leigusamningur á fasteignunum sem hýsa Magasin du Nord.
Solstra Holding er að helmingi í eigu Straums en að helmingi í eigu pakistanska fjárfestirins Alshair Fiyaz sem keypti sig inn í félagið í ágúst s.l.
„Þetta er bara fyrsta skrefið hjá okkur í að hámarka endurheimtur af útistandandi skuldum," segir Georg Andersen forstöðumaður samskiptasviðs Straums. „Það er mjög gott að hafa 25 ára leigusamning á þessu húsnæði því slíkur samningur mun auka verðmæti eignanna þegar fram í sækir."
Danskir sérfræðingar hafa undrað sig á lágu kaupverði Magasin du Nord en þarna liggur skýringin á því.
Í tilkynningu sem Solstra Holding hefur sent frá sér lýsir Alshair Fiyaz yfir ánægju sinni með kaup Debenhams. Hann segir m.a. að í fyrstu hafi þeir átt í viðræðum við Debenhams um samstarf en síðan hafi þær viðræður snúist upp í kaup Debenhams á rekstrinum.
Fiyaz segir ennfremur að kaupin og leigusamningurinn muni styrkja stöðu Solstra Holding í framtíðinni.