Nærri hundrað þúsund manns misstu vinnuna á Spáni í október. Atvinnulausir þar eru nú 3,8 milljónir og hefur þeim fjölgað um 990 þúsund undanfarið ár.
Atvinnuleysi á Spáni er því 17,9 prósent um þessar mundir, en það er mesta atvinnuleysi sem mælist í Evrópu. Meginástæðan er hrun í byggingariðnaði.
Ástandið er þó heldur að skána, því í október á síðasta ári misstu 192 þúsund manns vinnuna.
„Þótt tölurnar fyrir október séu neikvæðar, þá hafa mánaðarbreytingar milli ára verið að minnka síðan í mars," segir Maravillas Rojo, ráðuneytisstjóri í vinnumálaráðuneyti Spánar.- gb