Danskir bankar höfðu vægast sagt lítinn áhuga á að bæta lausafjárstöðu sína með dollurum sem í boði voru hjá danska seðlabankanum, Nationalbanken, í dag.
Nationalbanken hélt uppboð á 10 milljörðum dollara sem bankarnir gátu fengið að láni. Aðeins komu tilboð í 0,6 milljarða af þessari upphæð á vöxtum sem námu 0,74%.
Í frétt um málið á business.dk segir að dollararnir hafi verið hluti af lánalínum sem bandaríski seðlabankinn veitti töluverðum fjölda annarra seðlabanka í heiminum s.l. haust. Norðurlöndin öll, utan Íslands, voru með í þessum pakka. Fengu allir seðlabankar Norðurlandanna beinan aðgang að 10 milljörðum dollara hver.
Ennfremur segir í fréttinni að með þessu hafi fyrrgreind lánalína þjónað tilgangi sínum og að ekki sé ástæða fyrir seðlabankann að halda henni opinni lengur.