Japanski bílarisinn Toyota tapaði 765,8 milljörðum jena, jafnvirði rúmra 968 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári.
Þetta er mesta tap í japanskri fyrirtækjasögu og skrifast á snarminnkandi bílasölu um allan heim og styrkingu japanska jensins gagnvart Bandaríkjadal.
Á sama tíma í fyrra nam hagnaður Toyota, sem er umsvifamesti bílaframleiðandi í heimi, 316,8 milljörðum jena.
Stjórn bílaframleiðandans hefur ákveðið að skerða arðgreiðslur til hluthafa félagsins um helming vegna þessa. Arðgreiðslurnar, sem fram til þessa hafa verið greiddar út ársfjórðungslega, hljóðuðu í fyrra upp á 140 jen, jafnvirði 177 króna á hlut. Það er sömuleiðis í fyrsta sinn í áratug sem arðgreiðslur bílarisans hækka ekki.
Bandaríska dagblaðið New York Times bendir á að þótt tap Toyota sé næstum tveimur milljörðum meira en GM í Bandaríkjunum, þá sé fáu við að líkja. Sjóðir þess bandaríska séu þurrausnir eftir áralangt hark. Toyota hafi á móti safnað fé í sjóði sem komi sér vel þegar harðni í ári. - jab