FH leikur seinni leik sinn í annarri umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld þegar þeir taka á móti Bate Borisov frá Hvíta Rússlandi. Leikurinn fer fram á Kaplakrikavelli og hefst kl. 19:15.
Bate vann 5-1 stórsigur í fyrri leiknum og möguleikar FH eru því nánast engir. Leikmenn og þjálfari liðsins hafa talað um það að þeir séu að spila upp á stoltið í Krikanum í kvöld og gætu líka orðið fyrsta íslenska liðið sem tapar ekki á heimavelli á móti Bate.
Bate-liðið er í kvöld að spila sinn þriðja leik á Íslandi á síðustu þremur árum og liðið hefur unnið tvo hina leikina. Bate vann 3-1 sigur á FH í Kaplakrika árið 2007 og vann síðan 1-0 sigur á Val á Vodafone-vellinum árið eftir.
Sigurvegarar viðureignar FH og Bate mæta svo danska liðinu FC Kobenhavn í þriðju umferðinni.