Samdráttur í sölu vegna innköllunar á bílum vegna galla í bensíngjöf nýrra Toyota-bíla kann að verða meiri en vegna fyrri innkallana, að sögn framkvæmdastjóra Toyota Motor Corp., Shinichi Sasaki. Hann segir þetta vera vegna þess að gallinn sé alvarlegri en áður hafi þekkst hjá fyrirtækinu.
Sasaki, sem hefur umsjón með gæðastjórnun hjá bílaframleiðandanum, viðurkennir, að sögn fréttastofu AP, að fyrirtækið hafi verið seint til að bregðast við vandanum sem fólst í gallaðri bensíngjöf sumra bíla. Gallinn lýsir sér í því að bensíngjöfin getur fest í fullri inngjöf.
Hann segir enn ekki vitað hver áhrif innköllunarinnar verði, en nefnir að algengt sé að sala falli um fimmtung fyrsta mánuðinn eftir innköllun, en jafni sig svo smám saman.
Samkvæmt tölum sem Toyota birti í gær nær innköllunin til 4,45 milljóna bíla um heim allan, 2,48 milljónir í Bandaríkjunum, 1,71 milljón í Evrópu, 80 þúsund bílar í Kína og 180 þúsund á öðrum svæðum. - óká