„Þetta er í raun stórviðburður að Laurie Anderson sé að koma hingað,“ segir Ragnheiður Óladóttir, forstöðumaður Vatnasafnsins og Amtbókasafnsins í Stykkishólmi.
Bandaríski listamaðurinn Laurie Anderson ætlar að flytja gjörning og spila tónlist í Vatnasafninu í Stykkishólmi á laugardaginn og verður þetta í fyrsta sinn sem hún kemur hingað til lands. Anderson sló í gegn í listheiminum á níunda áratugnum og er einnig þekkt fyrir að vera eiginkona tónlistarmannsins Lou Reed.
„Hún er ein af þeim fyrstu sem notuðu margmiðlun í list sinni. Hún er mikil gjörningamanneskja og fjöllistakona. Hún er líka mjög skemmtileg og fyndin,“ segir Ragnheiður. „Hún er mjög þekkt á meðal listamanna og um leið og það fréttist af þessum viðburði varð strax uppselt.“
Aðeins um eitt hundrað manns sjá gjörninginn, enda fer hann fram í sérstöku rými Vatnasafnsins þar sem aðeins fjörutíu sæti eru í boði. „Vatnasafnið er listaverk sem var komið fyrir í gamla bókasafninu í Stykkishólmi,“ segir Ragnheiður. „Hún verður þarna innan um glersúlur sem eru fylltar með jöklavatni úr íslenskum jöklum og mun flytja þar þennan gjörning. - fb