Þetta kemur fram í frétt á Reuters þar sem segir að ekki sé útilokað að fjórði aðilinn bætist í hópinn en tilboðin á að leggja fram í uphafi næsta mánaðar.
Í fréttinni kemur fram að bæði Pfizer og Teva hafi dýpri vasa en Actavis/EQT og muni þar að auki hagnast meira á kaupunum á Ratiopharm vegna samlegðaráhrifa. Þýska blaðið Handelsblatt segir að í raun standi baráttan um Ratiopharm á milli Pfizer og Teva.
EQT er í eigu Wallenberg-fjölskyldunnar en samkvæmt heimildum Reuters mun Actavis og EQT ekki hafa burði til að bjóða meir en 3 milljarða evra í Ratiopharm. Er það einkum vegna þess hve skuldsett Actavis er fyrir.
Fram kemur í fréttinni að Deutsche Bank hafi lagt blessun sína yfir tilboð Actavis/EQT. Eins og fram hefur komið í fréttum eru allar líkur á að Deutsche Bank sé að yfirtaka rekstur Actavis enda skuldar félagið bankanum hátt í 5 milljarða evra.