Verslunarkeðjan Iceland í Bretlandi hefur hleypt af stokkunum samkeppni meðal bresks almennings um að finna næsta andlit keðjunnar. Hingað til hefur Iceland sótt þetta andlit til þekktra Breta en nú á að breyta um stefnu.
Áður hafa persónur á borð við Kerry Katona, Christopher Biggins, Coleen Nolan og Jason Donovan verið í hlutverkinu „andlit Iceland". Þetta hefur falist í því að viðkomandi hefur komið fram í auglýsingum Iceland og verið fulltrúi keðjunnar við ýmsar uppákomur.
Á næstunni verða haldnar prufur víða um Bretland til að finna hið rétta andlit. Þeim mun Coleen Nolan, núverandi andlit Iceland, stjórna en hún lætur af hlutverki sínu í næstu viku.
Samkvæmt frásögn í Guardian mun Iceland fagna 40 ára afmæli sínu á þessu ári. Keðjan er sem kunnugt er að 40% í eigu skilanefndar Landsbankans og hefur verið kölluð gullkú þrotabús bankans.