Gagnrýni

Einföld hugmynd, góð plata

Trausti Júlíusson skrifar
Albúm eftir Orra Harðar.
Albúm eftir Orra Harðar.

Tónlist ****

Albúm

Orri Harðarson

Albúm er fimmta plata Orra Harðarsonar og sú fyrsta síðan Trú kom út fyrir fimm árum. Albúm er byggð á ákveðinni hugmynd. Það eru 25 ár liðin frá því að Orri kom fyrst fram opinberlega, en sú staðreynd gaf honum þá hugmynd að gera plötu sem væri í anda fyrstu skrefa hans á tónlistarbrautinni - eingöngu rödd og kassagítar. Þetta er alvöru sólóplata í þess orðs sterkustu merkingu. Öll lög, textar, söngur, hljóðfæraleikur, hljóðritun og hljóðblöndun eru verk Orra sjálfs. Og öll tónlistin er spiluð á sama kassagítarinn.

Það getur verið gott fyrir listamenn að hafa ákveðna hugmynd til að vinna út frá. Kannski er það ástæðan fyrir því hversu heilsteypt og flott plata Albúm er. Lögin tíu standa öll fyrir sínu, textalega séð er platan langt yfir meðallagi, flutningur er góður og platan hljómar sérstaklega vel. Þó að það séu bara rödd og kassagítar á Albúm þá eru útsetningarnar fjölbreyttar og greinilegt að Orri kann vel að beita fyrir sig kassagítarnum. Platan er mjúk og lágstemmd og hljómurinn hlýr.

Textarnir eru flestir samfélagsrýni. Óland fjallar um þjóðfélagið sem fæddi af sér hrunið: „Er það þjóðin sem er vitlaus/eða bara fólkið sem hún kaus?/Hvort er það, væna/egg eða hæna?". Orri hefur sterkar skoðanir og liggur ekki á þeim. Bæði Kredit og Í guðs friði eru trúleysistextar og „nýaldarpakk", „kverúlantar" og „popúlistar" fá að heyra það á plötunni. En svo er ástin líka með í spilinu. Tilillagið Albúm er t.d. ástartexti með nostalgíublæ sem fjallar um þann tíma þegar fólk lá yfir vínylplötualbúmum. Gaman að þessu. Orri er enginn Megas, en honum liggur margt á hjarta og kemur því ágætlega frá sér.

Það er í raun ekki hægt annað en að óska Orra til hamingju með plötuna. Trú var fín, en Albúm er töluvert betri.

Niðurstaða: Tíu lög, rödd, kassagítar og hvergi dauður blettur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.