Atvinnuleysi á evrusvæðinu fór upp í 10% í febrúar. Þetta er í fyrsta sinn sem atvinnuleysi á svæðinu nær tveggja stafa tölu frá því að evran var tekin í notkun. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Evrópusambandsins er mikill munur á milli þeirra sextán þjóða sem aðild eiga að myntbandalaginu. Til dæmis er 19% atvinnuleysi á Spáni en í Hollandi er atvinnuleysið einungis 4%.
Þá benda tölur einnig til þess að verðbólga hafi verið meiri á evrusvæðinu í mars en undanfarna fimmtán mánuði. Hún hækkaði úr 0,9% í febrúar í 1,5% í mars. Verðbólgan er meiri en gert hafði verið ráð fyrir og kenna menn verðhækkunum á orku um það. Verðbólgan er þó innan við verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu sem er 2%. Ekki er búist við að bankinn breyti stýrivöxtum sínum næstu mánuði. Þeir eru nú 1%.
