Ný skoðanakönnun bendir til þess að sósíalistaflokkurinn í Grikklandi, sem fer með völd í landinu, nýtur meiri stuðnings en íhaldsflokkurinn, sem er í stjórnarandstöðu.
George Papandreou, forsætisráðherra landsins, segir í samtali við tímaritið Time að versti hluti kreppunnar í Grikklandi sé yfirstaðinn. Það sé hins vegar mikil vinna sem bíði. „Ég tel að það versta í kreppunni sé yfirstaðið. Kreppan hefur náð botni," segir hann í blaðinu sem kemur út í næstu viku.
Ríkisstjórnin hefur þurft að skera niður laun í opinbera geiranum og hækka skattana til að takast á við fjárlagahallann. Evrulöndin þrýsta hins vegar á ríkisstjórnina að gera enn meira, segir Ritzau fréttastofan.

