Jenson Button hjá McLaren telur að Formúlu 1 mótið á Sepang brautinni í Malasíu um aðra helgi sé það erfiðasta hvað líkamleg átök varðar. Hann var sáttur við bíl sinn í mótinu í Ástralíu um síðustu helgi, en Button vann mótið í Malasíu árið 2009.
„Þegar ég byrjaði í Formúlu 1, þá var mótið í Malasíu eitt af nýjustu mótunum á mótaskránni, en núna finnst mér það gamalkunnungt og skemmtilegt. Sepang brautin hefur batnað með árunum og er alltaf frábær braut og mótið hefur skapað sér sérstöðu", sagði Button í fréttatilkynningu frá McLaren í dag.
Button var í harðri keppni um sæti við Felipe Massa í síðustu keppni, en stytti sér leið um brautina í slagnum við Massa, til að lenda ekki í árekstri og fékk akstursvíti frá dómurum fyrir tiltækið. Hann brást ekki nógu fljótt við því, né McLaren að gefa sætið eftir sem hann hafði náð af Massa.
Button ók í raun ólöglega framúr Massa. Eftir að hafa tekið út refsingu dómaranna, náði Button sem að skáka Massa í keppninni og varð í sjötta sæti, en Massa varð sjöundi.
En Button hefur trú á McLaren bílnum eftir fyrsta mótið og líst vel á Sepang brautina.
„Það þarf skilvirkan bíl á brautina, beygjurnar eru plássmiklar og refsa ef bílarnir eru ekki með gott niðurtog. Mér finnst ég hafi verið á góðum bíl í Melbourne og hlakka til að vita hvernig bíllinn verður á æfingum á brautinni", sagði Button.
„Eitt af því sem skiptir mestu máli er að gæta þess að verða ekki fyrir vökvatapi. Þeir sem ekki hafa komið til Malasíu, átta sig ekki á því að þetta er eins ofn. Þetta er erfiðasta mót ársins líkamlega séð og gott líkamlegt ástand skilar sér í keppninni."
„Ég vann á brautinni árið 2009 í einhverum þeim verstu aðstæðum sem ég hef nokkurn tímann upplifað í kappakstursbíl. Það var eins og að keyra gegnum á á köflum. Hvað veður sem skellur á okkur, þá hef ég trú áð við getum skilað góðum árangri á ný", sagði Button.
