Handbolti

Guðjón Valur skoraði sex er AG tapaði fyrir Hamburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur í leik með íslenska landsliðinu.
Guðjón Valur í leik með íslenska landsliðinu. Nordic Photos / Bongarts
Dönsku meistararnir í AG töpuðu í gærkvöldi fyrir þýsku meisturunum, Hamburg, þegar liðin mættust í æfingaleik í Þýskalandi í gær.

Þetta var lokaleikur beggja liða á undirbúningstímabilinu og vann Hamburg þriggja marka sigur, 28-25.

Mikkel Hansen var markahæstur hjá AGK með sjö mörk en Guðjón Valur Sigurðsson kom næstur með sex. Snorri Steinn Guðjónsson skoraði eitt mark en Arnór Atlason og Ólafur Stefánsson eru frá vegna meiðsla.

Hamburg hafði fjögurra marka forystu í hálfleik, 16-12, og létu hana aldrei af hendi í síðari hálfleik.

Tæplega fjögur þúsund áhorfendur á leiknum og kemur fram í þýskum fjölmiðlum að hann hafi verið sendur út í beinni sjónvarpsútsendingu til 59 landa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×