Handbolti

Róbert með fimm í góðum sigri Löwen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert Gunnarsson.
Róbert Gunnarsson.
Rhein-Neckar Löwen byrjaði keppnistímabilið vel í Þýskalandi en liðið vann í kvöld góðan útivallarsigur á Grosswallstadt, 27-24.

Róbert Gunnarsson skoraði fimm mörk fyrir Löwen en þjálfari liðsins er Guðmundur Guðmundsson, sem einnig þjálfar íslenska landsliðið.

Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi en staðan var jöfn, 23-23, þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Róbert kom Löwen í tveggja marka forystu, 26-24, þegar skammt var til leiksloka en liðið getur einnig þakkað markverðinum Goran Stojanovic fyrir sigurinn þar sem hann varði mjög vel í leiknum.

Sverre Andreas Jakobsson lék í vörn Grosswallstadt í leiknum en komst ekki á blað að þessu sinni.

Einn annar leikur fór fram í deildinni í kvöld. Lemgo vann Bergischer á heimavelli, 34-28. Rúnar Kárason skoraði tvö mörk fyrir Bergischer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×