Handbolti

Vignir tryggði Hannover-Burgdorf afar óvæntan sigur á Löwen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vignir Svavarsson.
Vignir Svavarsson. Mynd/Arnþór
Guðmundur Guðmundsson mátti horfa upp á ótrúlegt tap með liði sínu, Rhein-Neckar Löwen, í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld aðeins nokkrum dögum eftir að liðið lagði meistara Hamburg.

Hannover-Burgdorf vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu í kvöld með 33-32 sigri á Löwen en Vignir Svavarsson skoraði sigurmark leiksins þegar tæp mínúta var til leiksloka.

Vignir skoraði alls þrjú mörk í leiknum en Hannover-Burgdorf hafði fjögurra marka forystu í hálfleik, 19-15. Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði einnig þrjú mörk fyrir liðið en Hannes Jón Jónsson komst ekki á blað.

Róbert Gunnarsson skoraði eitt mark fyrir Löwen en Uwe Gensheimer var markahæstur með tólf mörk.

Löwen er enn við topp deildarinnar með sex stig ásamt Kiel, Melsungen og Füchse Berlin sem eiga öll leik til góða. Hannover-Burgdorf lyfti sér upp úr fallsæti með sigrinum.

Úrslit dagsins:

Lemgo - Lübbecke 27-25

Melsungen - Gummersbach 33-26

Göppingen - Flensburg 23-25

Hannover-Burgdorf - Rhein-Neckar Löwen 33-32




Fleiri fréttir

Sjá meira


×