Handbolti

Alfreð hafði betur gegn Guðmundi - Róbert með fimm mörk

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ilic skorar eitt af sjö mörkum sínum í gegn Löwen í dag.
Ilic skorar eitt af sjö mörkum sínum í gegn Löwen í dag. Mynd / Jürgen Pfliegensdörfer
Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Kiel sem lagði Rhein-Neckar Löwen á útivelli í þýska handboltanum í dag. Róbert Gunnarsson skoraði fimm mörk fyrir Löwen.

Um var að ræða sannkallaðan Íslendingaslag því Guðmundur Guðmundsson þjálfar lið Löwen en Alfreð Gíslason lið Kiel.

Löwen hafði frumkvæðið framan af leik og komst í 12-8 um miðjan fyrri hálfleikinn. Kiel gáfust þó ekki upp, jöfnuðu og höfðu tveggja marka forskot í hálfleik 16-18.

Síðari hálfelikur var jafn framan af en gestirnir frá Kiel sigu þó fram úr eftir því sem leið á leikinn. Þeir unnu að lokum nokkuð sannfærandi sigur 30-27.

Momir Ilic var markahæstur gestanna með sjö mörk. Hjá heimamönnum skoraði Uwe Gensheimer níu mörk.

Kiel hefur unnið alla fimm leiki sína í deildinni og er á toppnum með 10 stig. Löwen er í fjórða sæti með sex stig en hefur leikið einum til tveimur leikjum meir en flest önnur lið.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport að lokinni tímatökunni í formúlunni klukkan 15:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×