Forseti Kasakstan, Nursultan Nazarbayev, hefur ráðið Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, í sína þjónustu. Daily Telegraph fullyrðir að hann vilji að Blair hjálpi sér að vinna friðarverðlaun Nóbels.
Auk þess að ráða Blair hefur forsetinn ráðið Alastair Campell, fyrrverandi upplýsingafulltrúa breska forsætisráðherrans, og Jonathan Powell, fyrrverandi starfsmannastjóra hans, sem ráðgjafa sína.
Bretar eru ekki á eitt sáttir um það hvernig Blair hefur varið kröftum sínum eftir að hann lét af embætti forsætisráðherra. Hann hafi blandað saman diplómatískum tengslum sínum og góðgerðastarfi við viðskiptasamninga sem færi honum milljarða punda auðævi.
En sjálfur segir Blair að hann hafi ekki hagnast á samskiptum sínum við forseta Kasakastan og að hlutverk sitt fyrir hann sé óljóst.
