Hagvöxtur jókst um 9,7 prósent í Kína á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er 0,1 prósentustigs samdráttur á milli ársfjórðunga og meiri vöxtur en gert var ráð fyrir. Á sama tíma hækkaði verðlag í kringum tíu prósent og keyrði verðbólgu upp. Hún mælist nú 5,4 prósent.
Niðurstaðan þykir sýna að aðgerðir stjórnvalda til að kæla hagkerfið, þar á meðal snarpar stýrivaxtahækkanir, gangi hægt, eins og Alistair Thornton, hagfræðingur IGS Global Insight, sem sérhæfir sig í greiningum í efnahags- og atvinnumálum, bendir á.
Breska viðskiptadagblaðið Financial Times segir hagtölurnar vísbendingu um að stjórnvöld í Kína muni draga úr aðhaldi á lánsfjármarkaði og lækka verðbólgu. Aðgerðir stjórnvalda hafi fram til þessa ekki dregið úr aðgangi fólks að lánsfé. Bankar lánuðu 680 milljarða júana, jafnvirði 11.800 milljarða íslenskra króna, í síðasta mánuði. Það er 27 prósenta aukning á milli mánaða.
Þrátt fyrir hita í kínverska hagkerfinu lofaði Wen Jiabao forsætisráðherra í ræðu sinni í liðinni viku að stjórnvöld myndu áfram gera fólki kleift að eignast ódýrara húsnæði. - jab
Bankarnir ausa út lánsfé
