
Almodóvar reynir sig við vísindaskáldskap í fyrsta sinn en höfuðeinkenni hans eru aldrei langt undan. Myndin er byggð á skáldsögunni Tarantula eftir Thierry Jonquet og segir frá lýtalækninum Robert Ledgard sem segist hafa fundið upp fullkomið skinn. Hann tekur jafnframt fram að hann hafi eingöngu prófað skinnið á tilraunamúsum en það er ekki alveg sannleikanum samkvæmt.
Banderas hefur ekki átt sjö dagana sæla á hvíta tjaldinu í Hollywood og hefur helst alið manninn í arfaslökum B-myndum. Það er því ekkert skrýtið að hann skuli leita aftur á náðir Almodóvars en spænski kvikmyndarisinn á einna helst heiðurinn af glæstum ferli Banderas.
Hann gaf leikaranum sitt fyrsta tækifæri í Laberinto de pasiones sem frumsýnd var 1982 og tveimur árum seinna var Banderas á allra vörum fyrir frammistöðu sína í La ley del deseo. Það var svo með kvikmyndunum Konur á barmi taugaáfalls og Bittu mig, elskaðu mig, báðar eftir Almodóvar, að Banderas fór vestur um haf til Hollywood.